144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þessar kröfur. Mér finnst óviðunandi að þingsályktunartillaga sem lögð er fram af formönnum allra minnihlutaflokkanna á þingi um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðnanna fari ekki á dagskrá, ekki einu sinni fyrir páska. Þetta mál hefur talsvert verið rætt hér undanfarnar vikur af því að utanríkisráðherra sendi bréf. Það var röng boðleið. Það var rangt hjá honum að reyna að koma því máli á dagskrá með því að senda bréf út í heim. Hann á að koma með þingmál inn í þingið. Það erum við að gera, við erum að fara rétta boðleið. Mér finnst lágmark í þessu stóra máli að okkur sé umbunað fyrir að fara réttar boðleiðir með ákvörðunarvaldið og að þetta mál fari fljótt og vel á dagskrá fyrir páska.