144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er aldeilis fáheyrt að mál sem fjórir formenn stjórnarandstöðuflokka leggja fram fáist ekki rætt. Ég man satt að segja ekki eftir því, a.m.k. ekki með mál af þessari stærðargráðu. Þar fyrir utan finnst mér að hérna sé heldur betur verið að undirstrika þá gjá sem hefur orðið milli þings og þjóðar þegar við blasir að þetta er mál sem 80% þjóðarinnar vilja að nái fram að ganga. Þannig eru síðustu skoðanakannanir. Ef hæstv. forseti skoðar dagskrána hér í dag sér hann að þar er helsta mál á dagskrá málefni sem varðar niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar. Það vita allir að það er vanreifað mál, það er svo vanreifað að stjórnarandstaðan hefur óskað eftir því og fengið stuðning forseta fyrir því að gerð verði stjórnsýsluúttekt á áformum ráðherrans. Það þýðir auðvitað að það mál ætti að bíða þangað til niðurstöður hennar liggja fyrir. Mér finnst algjörlega einboðið að það mál verði tekið af dagskrá og hitt sett nú þegar á dagskrá þessa fundar.