144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta var ágætt innlegg frá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, ekki síst í ljósi þess að það hefur einmitt verið rætt undir þessum dagskrárlið hvernig málið var afgreitt frá allsherjarnefnd, þannig að ég get tekið undir orð hv. þingmanns.

Það er nú ekki þess vegna sem ég kem hér upp heldur vegna þeirra fáheyrðu tíðinda að mál sem stjórnarandstöðuflokkarnir bera hér allir fram saman kemst ekki á dagskrá. Ég hef ekki verið lengi í þessum sölum en ég minnist þess ekki að það hafi verið þannig komið fram við minni hlutann, heldur hafi verið reynt að koma málum áfram þegar svo stór mál eins og þetta eru á dagskrá. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með að ekki eigi að taka þetta mál á dagskrá fyrir páska, ekki síst í ljósi þess klúðurs sem sá maður, hæstv. utanríkisráðherra, sem fer með þetta mál fyrir okkar hönd hefur komið okkur í.