144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[13:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er gott að hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins er reiðubúinn að ræða þessa tillögu hvenær sem er og hvar sem er. Ég tel þó mjög mikilvægt að hún sé rædd hér í þinginu en ekki hvar sem er. Ég tel mjög mikilvægt að hún sé sett á dagskrá fyrir páska. Ég vil benda á að það er ekki einhver urmull af mikilvægum málum að koma frá ríkisstjórninni, ég hef vakið máls á því hér í pontu að þau eru átakanlega fá, frumkvæðismál frá ríkisstjórninni. Það er beinlínis fundarfall í nefndum þingsins út af skorti á málum frá ríkisstjórninni þó að urmull sé af málum frá þingmönnum.

Ég vil líka benda á að um þetta mál, um þjóðaratkvæði um áframhald viðræðnanna, ætti að vera rík samstaða á þingi. Það eru ekki bara minnihlutaflokkarnir sem standa að þessu, flokkarnir sem eru í ríkisstjórn, hinir tveir sem sitja á þingi sögðu báðir skýrt fyrir kosningar og í raun rétt eftir þær (Forseti hringir.) líka að þeir vildu svona þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það þá ekki bara alveg augljóst að setja það á dagskrá og vinda okkur í þetta?