144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[14:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur vil ég nota tækifærið og hvetja hv. þingmann til að flytja tillögu í allsherjar- og menntamálanefnd í samræmi við það sem hún sagði hér í ræðustólnum. Ég er viss um að slík tillaga fái góðan hljómgrunn í nefndinni enda full ástæða til að huga að því sem hún hélt hér til haga.

Hitt, virðulegur forseti, verður að spyrja sig um hvort þessi umræða hafi ekki afhjúpað að ekki sé meirihlutastuðningur fyrir þinginu á bak við ákvörðun forseta, því að hér hafa bæði formaður og varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins lýst því yfir að þau séu tilbúin til þess hvar og hvenær sem er að ræða Evrópusambandið eins lengi og við viljum. (Gripið fram í.) Þá fæ ég ekki betur séð en að 3/4 hlutar þingsalarins hljóti að styðja það að málið (Gripið fram í.) komist á dagskrá, (Gripið fram í.) bæði minnihlutaflokkarnir og forusta þingflokks Sjálfstæðisflokks. Maður fer því að velta fyrir sér hvort það sé kannski tilefni til þess að leita bara til fundarins um það hvort vilji sé fyrir dagskrárbreytingu.