144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[14:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst til að ítreka þá kröfu sem ég setti fram í upphafi að þetta mál sem formenn fjögurra flokka hér á þingi leggja fram fáist tekið á dagskrá. Ég ætla ekki að drepa umræðunni á dreif með umræðum um ræðutíma. Ég er mjög til í ræðutíma samkvæmt hefðum og venjum þingsins enda málið stórt og mikilvægt að ræða það, en þetta er gríðarstórt mál og mikilvægt að þingið bregðist við þessari kröfu formanna fjögurra flokka, sérstaklega í ljósi þess, eins og hér hefur verið bent á, að á dagskrá þingsins í dag er vanreifað mál. Óskað hefur verið eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á þeirri tillögu að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands og það er ómögulegt að ljúka því máli fyrr en öll gögn liggja fyrir, bæði sú stjórnsýsluúttekt og líka skýrsla sem við höfum beðið um nokkur í þinginu. Ég sé því ekki hver hraðinn á að vera í því máli á meðan tillaga okkar fjögurra bíður um mál sem brennur á þjóðinni.