144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[14:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er búinn að finna þetta í þingsköpum. Ég varð mjög hissa á því að sjá að þingflokksformenn gætu ákveðið fyrir fram að takmarka umræður í samráði við forseta. Það er víst hægt samkvæmt 86. gr. þingskapa. Mér finnst mjög óeðlilegt að það vald sé til staðar. Ef við tölum um þingsköpin skal það liggja ljóst alveg fyrir að forseti hefur endanlegt úrskurðarvald um þingsköpin og forseti hefur algjört alræðisvald þegar kemur að því að ákveða hvernig dagskráin skuli vera á Alþingi. Ef forseti hefði áhuga að koma á dagskrá þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál, ESB, sem allir flokkar á Alþingi hafa lofað kjósendum, hafa lofað landsmönnum að verði, þá gæti hann það. Það er mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að nú er utanríkisráðherra að reyna með klækjum, á diplómatískan hátt, eins og hæstv. forseti orðar það, að fá Evrópusambandið til að slíta þessum umræðum og fara fram hjá vilja þingsins, fram hjá samþykktri þingsályktunartillögu. Forseti hefur þetta vald (Forseti hringir.) algjörlega. Hann gæti sett þetta mál á dagskrá núna, við gætum talað í allan dag, (Forseti hringir.) og svo bíður fyrri umr. bara (Forseti hringir.) eftir það. En við (Forseti hringir.) getum byrjað í dag, það er mikilvægt hygg ég.