144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[14:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þeirri stöðu sem við erum í. Hvers vegna er ekki hægt að verða við því þegar forustumenn fjögurra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi óska eftir því að mál verði tekið á dagskrá, mál sem er mjög mikilvægt? 80% þjóðarinnar hafa sagt að þau vilji fá að greiða um það atkvæði hvort og hvernig haldið verði áfram með Evrópumálið. 55 þús. manns skrifuðu undir áskorun á þingið um sambærilegt mál á síðasta ári. Hvað óttast menn í þessu? Hvað óttast meiri hluti þingsins í málinu svo mjög að menn leggja allt þetta á sig til að koma í veg fyrir að þjóðin verði spurð þessarar spurningar, þeirrar einföldu spurningar hvort fólk vilji, þjóðin vilji, að haldið verði áfram með aðildarviðræðurnar? Ég skil þetta ekki.