144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

tillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

[14:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst það vera ansi þungt að hæstv. forseti skuli ekki ljá máls á þessari beiðni okkar. Hún er í sjálfu sér kurteislega fram sett en þyrfti ekkert að vera það. Það er ekki á hverjum degi sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna allra leggja saman fram þingmál. Þingmálið tekur þar að auki beint á því máli sem má segja að hæstv. utanríkisráðherra hafi sett hér kirfilega á dagskrá með sínu sérkennilega bréfi til Evrópusambandsins fyrir röskri viku. Ég vil jafnframt að það komi fram að stjórnarandstaðan hefur, til þess að greiða fyrir málinu og greiða fyrir því að stjórnarliðið sjái sér fært að setja það á dagskrá, boðið fram að umræðan verði einungis í þrjá tíma, jafnvel skemur. Það er ekki með nokkrum hætti hægt að halda því fram að stjórnarandstaðan sé með einhvers konar vél að reyna að koma þessu máli á dagskrá til að stöðva þingstörfin, síður en svo.

Hæstv. forseti veit eins vel og ég að það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum, ekki bara í dag heldur líka næstu viku, ef stjórnarandstaðan fengi málinu framgengt. En mér sýnist að þessi ósvinna af hálfu stjórnarliðsins verði ekki til þess.