144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Samfylkingin var í fararbroddi síðustu ríkisstjórnar við að hrinda af stað olíuleit á Drekasvæðinu. Ráðherrar Samfylkingarinnar og þingmenn töluðu um að mörg tækifæri mundu fylgja olíurannsóknum og olíuvinnslu, bæði uppbygging og atvinna. Þetta er einn af sóknarfleygunum inn í framtíðina, sögðu samfylkingarþingmenn og -ráðherrar á gleðistundu. Þeir vöktu vonir og trú fólksins á Norður- og Austurlandi um ný tækifæri og mikla uppbyggingu í framtíðinni. Hafnarframkvæmdir komust á dagskrá og fjöldi aðila kannaði möguleika á svæðinu. Samningar voru undirritaðir um olíuleit og rannsóknir á Drekasvæðinu sem teljast í kostnaði upp á milljarða króna. Það ríkti trú á tækifæri og innlend og alþjóðleg fyrirtæki höfðu trú á verkefninu og viðsemjandanum, ríkisstjórn Íslands.

Nú hefur Samfylkingin tekið stöðu gegn tækifæri á uppbyggingu og kastað fyrir róða stefnu flokksins til margra ára um nýtingu og uppbyggingu tækifæra fyrir land og þjóð í kringum olíuvinnslu á Drekasvæðinu, rænir bjartsýnustu menn draumum um svæðið.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort Samfylkingin vilji slíta þeim samningum sem flokkurinn stóð að á síðasta kjörtímabili og hvort það hafi verið hugsað til enda hvað slík kúvending fyrir fyrirtækin kosti þjóðarbúið. Það er kostulegt hvernig Samfylkingin hefur brugðist íbúum á Norður- og Austurlandi, á landinu öllu, sem bundu sérstakar vonir við þau tækifæri og rannsóknir sem olíuleit kynni að hafa á samfélagið. Í skjóli slíkra umsvifa skapast mýmörg tækifæri til þjónustu og sköpunar þar sem skortur er á fjölbreyttara atvinnulífi sem greiðir góð laun. Á frægum fundi Samfylkingarinnar gleymdist nánast að minnast á kjör verkafólksins í landinu og í stjórnmálaályktunum var lítið á það minnst eða í besta falli vantaði allan kraft í stöðu með launafólki.

Virðulegur forseti. Launafólk í landinu þarf á stuðningi að halda og mikilvægt að þær atvinnugreinar eins og útflutningsgreinar sem hafa svigrúm til hækkandi launa skili til verkafólks hluta af þeim ávinningi sem góð afkoma útflutningsgreinanna hefur sýnst á síðustu árum. Til þess þarf meiri slagkraft en (Forseti hringir.) Samfylkingin býður upp á. Það er sprungið á Samfylkingunni.