144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag vil ég vekja athygli á jákvæðum áfanga sem náðst hefur í þeirri vegferð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að rétta stöðu íslenskra heimila og styðja við bakið á þeim. Fjölmörg heimili hafa nú fengið leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum sínum. Alls bárust 69 þús. umsóknir frá 105 þús. einstaklingum um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. Á miðnætti rann út þriggja mánaða frestur til að samþykkja ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar hjá þeim umsækjendum sem gátu samþykkt leiðréttinguna 23. desember sl. en 99,4% af þeim samþykktu ráðstöfunina.

Í dag hafa 101 þús. umsækjenda, þ.e. 96% af heildinni, fengið birta niðurstöðu útreiknings. Þetta stóra réttlætis- og sanngirnismál er nú komið í höfn og styður heimilin, grunnstoðir samfélagsins, sem nú eru kraftmeiri. Það er ánægjulegt að heyra af fjölskyldum sem finna verulega fyrir breytingu á högum sínum. Það að fá lækkun á mánaðarlegum afborgunum um einhver þúsund þýðir sannarlega meira svigrúm til þátttöku í félagslífi og tómstundum, svo eitthvað sé nefnt.

Þá vil ég einnig nefna að í gær höfðu 33.300 sótt um að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til að greiða inn á höfuðstól veðlána en talsverð aukning hefur verið í umsóknum síðustu vikurnar. Þarna er gott tækifæri til að laga enn skuldastöðu heimilanna og búa í haginn fyrir framtíðina. Við Íslendingar megum alveg snúa örlítið til baka og huga að því að gott er að spara fyrir hlutunum og eiga jafnvel fyrir þeim áður en farið er af stað. Það vekur athygli mína hve lítið hefur í raun verið fjallað um þessa aðgerð og framkvæmd hennar sem er afrek í sjálfu sér. Það segir mér að hlutirnir hafa gengið vel fyrir sig og fátt komið upp á. Ríkisskattstjóri og fólkið sem vann að þessari framkvæmd á miklar þakkir skildar og það vann mikið afrek við flókið úrlausnarefni. Vegferð og barátta sem hófst fyrir (Forseti hringir.) sex árum er nú orðin staðreynd. Nú er verið (Forseti hringir.) að rétta hlut heimilanna á kostnað þrotabúa bankanna og kröfuhafa, líkt og talað hefur verið um frá upphafi.