144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka áhuga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á Samfylkingunni og fagna því að þeir hafi fylgst með snörpum, spennandi og kraftmiklum landsfundi. Ég hvet þá til að fara inn á heimasíðu Samfylkingarinnar og kynna sér þær fjölmörgu ályktanir sem þar voru samþykktar.

Ég ætla að fara í stuttu máli yfir eina þá mikilvægustu. Hún varðar húsnæðismálin. Samfylkingin hefur verið í forustu í húsnæðismálum og hefur miklar áhyggjur af þeim seinagangi sem nú er hjá núverandi ríkisstjórn til að tryggja íbúðir fyrir alla. Við munum á næstu dögum leggja fram þingsályktunartillögu með aðgerðum bæði í bráð og lengd. Ég ætla að fara hér yfir þær bráðaaðgerðir sem ég bið hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem og aðra þingmenn í þessum sal að hjálpa okkur að fá samþykktar því að þær varða íbúðir fyrir alla.

Þessar aðgerðir eru hækkun á húsaleigubótum þannig að þær verði jafnstæðar vaxtabótum, þær eru að aukið verði framboð á leiguíbúðum sem nú eru í útleigu til ferðamanna með skattfrelsi á leigutekjum af einni íbúð með ákveðnum viðmiðum. Síðan viljum við að lögum um skuldaþak sveitarfélaga verði breytt þannig að skuldsetning vegna félagslegs húsnæðis falli ekki þar undir og mun það gera sveitarfélögunum kleift að kaupa félagslegar íbúðir og tryggja þannig húsnæðisöryggi allra sinna íbúa.

Þá viljum við líka að fyrir lágtekjufólk og ungt fólk verði þróaður viðbótarlánaflokkur með ríkisstuðningi þannig að allt það fólk sem hvorki hefur efni á að kaupa né leigja geti veitt fjölskyldum sínum eðlileg skilyrði til búsetu.

Hjálpið okkur að koma í gegn (Forseti hringir.) íbúðum fyrir alla.