144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er nú á sömu nótum og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir en ákvað að halda mig við ræðuna því að aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Eins og mörgum er kunnugt þá hefur skuldaaðgerð vegna verðtryggðra húsnæðislána náð fram að ganga. Aðgerðin náði til 69 þúsund umsókna eða 105 þúsund einstaklinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán. Meginþorri þessara einstaklinga gat samþykkt ráðstöfun leiðréttingar frá 23. desember til 23. mars. Er þar um að ræða 101 þúsund manns eða 96% af heildarumsækjendum leiðréttingarinnar. Enn á eftir að vinna úr 3.000 til 4.000 umsóknum, unnið er hörðum höndum við að klára þær.

Það var á miðnætti sem þriggja mánaða samþykkisfresturinn rann út. Nú hefur það komið fram að 99,4% þeirra sem hafa fengið leiðréttinguna birta samþykktu hana. Heildarupphæð leiðréttingar var 79,4 milljarðar. Af heildarupphæðinni er gert ráð fyrir að 73,7 milljörðum verði ráðstafað inn á lán einstaklinga eða heimila í landinu og 5,7 milljörðum verði ráðstafað sem sérstökum persónuafslætti og sú aðgerð mun skiptast niður á fjögur ár.

Við gerum okkur grein fyrir að það eru mörg önnur heimili í landinu en heimili með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að sjá frumvörp sem munu taka á heimilum sem eru á leigumarkaðnum eru að koma inn í þingið núna um mánaðamótin. Þetta eru frumvörp er varða stofnstyrki til uppbyggingar á leiguíbúðum. Talað er um að það fyrirkomulag geti lækkað leigukostnað um mörg prósent. Einnig er um að ræða frumvörp er varða breytingar á húsaleigulögum, breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög og frumvarp er varðar aukinn stuðning í formi húsnæðisbóta til leigjenda. Öll þessi frumvörp eru til bóta fyrir leigjendur landsins og afar ánægjulegt er að sjá efndir í þessum málum en ekki kyrrstöðu eins og ríkti allt síðasta kjörtímabil þegar við fengum ekki að sjá neitt einasta frumvarp er tók á þessum málum.