144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:43]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Gamall maður austur á fjörðum fór stundum á fætur á morgnana, hlustaði á útvarpið og sagði að loknum fréttum: „Ja, nú skil ég ekki Jósef Stalín.“ Það var þannig með mig á laugardaginn. Þegar ég fór á fætur og opnaði Fréttablaðið skildi ég ekki Jósef Stalín. Mér er alveg fyrirmunað að skilja — ég er reyndar meira spenntur fyrir niðurstöðum kosninga en skoðanakannana en í þessari skoðanakönnun kom í ljós að flokkur Pírata, þ.e. flokkur sem kennir sig við skipulagða glæpastarfsemi, nýtur 30% [Háreysti í þingsal.] kjörfylgis miðað við skoðanakannanir. Einhverjir hér hneykslast á orðum mínum en ef sjóræningjastarfsemi er ekki skipulögð glæpastarfsemi skil ég ekki orðið.

Síðan ætla ég að benda á að þessi flokkur hefur tiltölulega þunna stefnuskrá en eitt af stefnumálunum er að berjast gegn spillingu. Það er náttúrlega (Gripið fram í.) gott og vel, það er ágætt, (Gripið fram í.) en síðan gerast þau ósköp um helgina að kafteinn Pírata býðst til þess að sameina alla andstöðu bæði til hægri og vinstri við sig, ég veit ekki hvar sumir flokkar standa, hvort þeir eru hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn eða vinstra megin, en sumir eru dálítið langt til hægri, það á að sameina alla undir hægri-snú/vinstri-snú-flokk.

Ég vona að þessi skoðanakönnun hafi aðeins verið lítið gult spjald til míns flokks til dæmis og jafnvel annarra flokka og að menn taki heiðarlega afstöðu á þingi og greiði þá atkvæði en sitji ekki hjá eins og er algengast hjá þessum flokki.

Hef ég þá (Gripið fram í.) lokið máli mínu.