144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[14:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Mig langar að gera að meginatriði máls míns nýútkomna skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem í sjálfu sér staðfestir því miður flest það sem sá sem hér stendur hefur sagt og haldið fram síðustu mánuði og missiri. Meginniðurstaða skýrslunnar er meðal annars að verslunin hefur ekki skilað gengisstyrkingu krónunnar til almennings og það kemur einnig fram að í sjálfu sér skortir Samkeppniseftirlitið úrræði og heimildir nema um sé að ræða sérstaklega alvarleg brot á samkeppnislögum.

Varðandi það að skila ekki gengistryggingu til almennings lét einn forsvarsmaður verslunarinnar hafa eftir sér um daginn að skýringin á því væri sú að verslunin gat ekki á sínum tíma í hruninu tekið til sín alla lækkun krónunnar, þ.e. verðhækkun sem af henni leiddi, og því hafi verslunin tapað umtalsverðu fé.

Almenningur á Íslandi tapaði helmingi lífskjara sinna í hruninu. Margir hverjir töpuðu ævisparnaði sínum og fasteignum. Þessi sami almenningur á nú að dómi verslunarinnar sjö árum síðar enn að vera að greiða meint tap verslunarinnar í hruninu. Maður veltir fyrir sér hvenær það verði fullbætt. Á bls. 40 í skýrslu Samkeppniseftirlitsins segir, með leyfi herra forseta:

„Ljóst er að verð á dagvörum hefur hækkað nokkuð frá árunum 2011/2012 þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar hafi verið að styrkjast, en það ætti að öðru óbreyttu að veita svigrúm til verðlækkunar. Þannig nemur verðhækkun á dagvörum í heild frá ársbyrjun 2011 til ársloka 2014 u.þ.b. 10%. Á sama tíma styrktist gengi íslensku krónunnar um u.þ.b. 5%.“

Hér segir um aðgerðir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að neytendur njóti styrkingar á gengi og bættrar afkomu smásala í gegnum lægra vöruverð.

Birgjar og dagvöruverslunin verða að endurskoða viðskiptasamninga sína með samkeppni í huga […]

Mikilvægt er að neytendur og samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti sýni fyrirtækjum á dagvörumarkaði aðhald með öllum tiltækum ráðum. […]

Stjórnvöld verða að beita sér fyrir aukinni samkeppni, m.a. með opnun markaða og endurskoðun á samkeppnishindrandi ákvæðum búvöru- og tollalaga […]“

Það segir í skýrslunni að fákeppni sé enn til staðar. Samþjöppun eignarhalds hefur aukist. Stærsti aðilinn í verslun er með 50% markaðshlutdeild en meiri á höfuðborgarsvæðinu. Tveir aðilar eru með 70% markaðshlutdeild í eigu sömu aðila að nokkru leyti.

Það er til svokallaður HHI-stuðull sem mælir samþjöppun á einstökum mörkuðum og hann gefur eftirfarandi ljós: Þar sem lítil samþjöppun er á markaði er stuðullinn undir 1000 stigum. Á markaði þar sem miðlungssamþjöppun mælist er HHI-stuðullinn á milli 1000 og 1800 stig. Árið 2014 var HHI-stuðullinn 3001 stig á landsvísu á Íslandi en 3500 stig á höfuðborgarsvæðinu.

Það kemur fram í skýrslunni að Samkeppniseftirlitið hyggur á að taka upp sérstakt stjórnsýslumál vegna þess að samningar birgja og verslana hafa ekki verið gerðir með þeim hætti sem lýst var í skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kom út árið 2012. Þar á hefur ekki orðið bragarbót. Þar birtist svokallaður óútskýrður verðmunur sem kemur væntanlega mest fram í því að álagning á vörur frá tengdum fyrirtækjum hefur aukist merkjanlega á tímabilinu sem um ræðir. Þetta eru alvarleg tíðindi þegar við getum gert okkur grein fyrir því að stærstu fyrirtæki á markaði ráða yfir bæði heildsölu og smásölu, jafnvel kjötvinnslum o.fl.

Afkoma verslunarinnar kemur líka greinilega í ljós ef horft er á arðsemi eigin fjár. Á bls. 46 í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að samkvæmt upplýsingum um arðsemi skráðra dagvörusmásala, „grocery retailers“, erlendis sé meðalarðsemi eigin fjár um 13% í Evrópu og um 11% í Bandaríkjunum. Á Íslandi er þetta 35–40%.

Mig langar í þessari fyrri umferð að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga: Finnst ráðherra skýrslan gefa til kynna að verslunin hafi brugðist hlutverki sínu og því trausti sem henni er sýnt? Hyggst hæstv. ráðherra efla úrræði Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum beita sér fyrir auknum fjárheimildum til að tryggja stöðu neytenda? Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á samkeppnislögum, t.d. hvað varðar markaðsráðandi stöðu og stöðu skyldra aðila?