144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Fyrir þó nokkrum árum, það var í kringum 2000, starfaði ég hjá þáverandi Samkeppnisstofnun að verkefni við að taka saman eigna- og stjórnunartengslaskýrslu. Þar kom alveg skýrt fram hvers konar turnar væru á þessum smásölumarkaði. Almennt er fákeppni í samfélaginu, það er nokkuð sem við vitum öll en þarna sá maður svart á hvítu hvernig sú fákeppni leit út. Og hún leit mjög illa út. Svo sáum við líka náttúrlega að á þessum árum var samráð grænmetisbænda sem og olíufélaganna — en hver eru viðurlögin? Viðurlögin eru slík að það borgar sig að hafa samráð. Menn komast upp með það því að kostnaðurinn er svo lítill að það borgar sig að vera með samráð. Jafnvel þó að menn séu ekki með formlegt samráð, eins og þeir hafa farið í, verða samt sem áður alltaf á svona litlum markaði, með fáa aðila á fákeppnismarkaði, menn sem þekkja sína viðskiptafræði og leikjafræði og þá getur orðið þögult samkomulag. Menn þurfa ekki endilega að setjast niður og ákveða að vera í ólöglegu samráði.

Á olíumarkaði er til dæmis verðið mjög svipað á öllum stöðum, það hreyfist eins bæði upp og niður. Núna er heimsmarkaðsverð á olíu í sögulegu lágmarki, a.m.k. síðasta áratug og lengur. Olíuverð á Íslandi hefur lækkað, það er rétt, en mjög lítið þannig að við sjáum þetta í reynd. Það þarf klárlega að gera annan skurk í málinu en að gera þetta kostnaðarsamara fyrir fyrirtækin, er það ekki? Maður spyr sig: Hvers vegna varðar það ekki hegningarlög ef það hefur verið sýnt fram á að menn hafa brotið lög viljandi og meðvitað í samráði? Það er nokkuð sem má hugsa. En það væri ekki nóg, það þarf líka að taka heildstætt á þessum málaflokki (Forseti hringir.) og það er fullt af ráðum sem hægt er að grípa til. Ég held að við ættum að hlusta meira á hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur í þessum málaflokki (Forseti hringir.) því að þegar öllu er á botninn hvolft varðar þessi samkeppni neytendur og neytendavernd og hún er þar sérfræðingur.