144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er öllum neytendum til bóta ef raunveruleg og virk samkeppni er á markaði. Hér á Íslandi búum við þó ekki við mikla samkeppni, eða svo virðist ekki vera, heldur verður að tala um fákeppni í þessu samhengi vegna þeirrar miklu samþjöppunar sem hefur átt sér stað á markaði undanfarin ár. Það kemur meðal annars fram í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins að vísbendingar eru uppi um að samþjöppun sé smám saman að minnka eða um stundarsakir. Það kemur einnig fram í skýrslunni að samþjöppun sé enn mikil og nauðsynlegt að bregðast við því, neytendum landsins til hagsbóta.

Því miður er það svo og hefur viðgengist um langa tíð að þegar jákvæðar og utanaðkomandi aðstæður eiga að leiða til lækkunar á vöruverði skilar sú lækkun sér ekki til neytenda. Nýjustu dæmin sem við höfum horft upp á í þeim efnum eru meðal annarra styrking krónu gagnvart ýmsum gjaldmiðlum, lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts og afnám vörugjalda. Í allt of mörgum tilvikum hefur það ekki skilað sér til neytenda landsins.

Þegar breytingar verða hins vegar á ýmsum gjöldum sem geta leitt til hækkunar hefur sú hækkun oft hröð áhrif á vasa neytenda. Allt of oft heyrum við fréttir af því þegar lækkanir verða að vörubirgðir í landinu séu miklar og því ekki hægt að lækka vöruverð eins og er þegar lækkanir eiga að skila sér. Annað er heldur betur upp á teningnum þegar einhverjar hækkanir eiga sér stað, þá virðist birgðastaðan sjaldan vera góð. Það er alveg hreint ótrúleg tilviljun.

Vissulega hefur neytendavakning aukist. Við höfum oft heyrt fólk tala um þá þætti og benda á það á opinberum vefum ef því finnst pottur brotinn í þessum málum, en er ekki nauðsynlegt að efla eftirlit í þessum málum, heimilum landsins til hagsbóta? Við heyrum allt of oft fréttir af því að svo virðist sem markaðurinn geti ekki séð um þetta sjálfur. (Forseti hringir.) Það eru allt of mörg dæmi þess efnis.