144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í umræddri skýrslu Samkeppniseftirlitsins eru leiðbeiningar til samkeppnisaðila og stjórnvalda. Þar sem við þingmenn tengjumst stjórnvöldum er rétt að líta til þess sem við getum gert til að bæta hag neytenda og auka kaupmátt. Stjórnvöld hafa í mörgum tilvikum látið undir höfuð leggjast að taka tillit til tilmæla Samkeppniseftirlitsins, tilmæla sem hafa snúið að því að stjórnvöld skapi aðstæður fyrir samkeppni og nýti hvata samkeppninnar á sem flestum sviðum, þar á meðal í landbúnaði þannig að sambærilegar reglur gildi um samkeppni á þeim markaði sem öðrum. Tilmælin hafa líka verið þau að dregið verði úr markaðstruflandi aðgangshindrunum, þ.e. í formi innflutningsverndar. Það stoðar lítið fyrir stjórnvöld og þar með þingmenn að gagnrýna hátt verðlag á matvöru ef þeir hinir sömu eru ekki reiðubúnir að grípa til aðgerða sem eru til þess fallnar að efla samkeppni.

Í dag skila tollar af matvöru, tollar sem ekki eru til verndar, 2 milljörðum í ríkissjóð. Þar er að finna magntolla og verðtolla. Ég er hér með glæru, virðulegur forseti, yfir vörur sem við framleiðum ekki í landinu, t.d. parmesanost, þar er 30% verðtollur, og magntollur á kíló er 430 kr. Á parmahráskinku er 30% verðtollur og magntollur upp á 447 kr.

Virðulegur forseti. Þessu þarf að breyta og þar hafa þingmenn tækifæri. Ég ætla því að fagna því sérstaklega að í dagblaði í dag er haft eftir hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að hann hyggist taka tollakerfið til heildarendurskoðunar til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.