144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ekki aðeins er búið að óska eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar heldur hafa líka níu hv. þingmenn lagt fram skýrslubeiðni þar sem óskað er frekari upplýsinga um þetta mál, sem þarf auðvitað helst að svara áður en við ræðum það í þinginu. Þar er meðal annars bent á að skoða þurfi talsvert betur reynsluna af því fyrirkomulagi sem nú er og enn fremur að það liggi fyrir að gerð verði jafningjaúttekt af hálfu þróunarsamvinnunefndar OECD 2016. Við veltum upp þeim spurningum hvort tímabært sé að fara að ræða um þetta frumvarp meðan öllum þessum spurningum er ósvarað, bæði sem birtast í skýrslubeiðninni og líka í því erindi sem við sendum til Ríkisendurskoðunar.

Það eru væntanlega mörg brýn mál sem liggja fyrir í þinginu. Hvers vegna á þá að fara að ræða hér mál sem er vanbúið? Ég nefni aftur þingsályktunartillögu okkar formanna stjórnarandstöðuflokkanna (Forseti hringir.) sem ekki fær að fara á dagskrá (Forseti hringir.) fyrr en eftir páska af því að það liggur svo (Forseti hringir.) mikið á að ræða þetta mál sem er vanbúið.