144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því að ríkisendurskoðandi hafi fengið bréfið og fái þá að meta það sjálfur hvort hann telji eðlilegt að verða við þessari beiðni. Ég ætla líka að taka undir það sem hér hefur komið fram að einnig hefur verið lögð fram beiðni um skýrslu. Hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, var hér að kenna okkur hvernig meðferð mála í þinginu væri háttað. Ég get að vissu leyti tekið undir orð hans, en ég vil líka benda á að hér fáum við ítrekað inn vanhugsuð mál sem lúta aðallega að því að auka gerræði ríkisstjórnarinnar. Hér á að veita opna heimild til þess að leyfa ráðherrum að ákveða hvar stofnanir eiga að vera staðsettar. (BÁ: Ekki í þessu máli.) Nei, en það hefur verið gert hér ítrekað. Hér hafa verið lögð fram mál sem sýna ekki faglega nálgun heldur eingöngu gerræðislega tilburði og að því leyti er full ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að (Forseti hringir.) fá miklu betri úttekt en (Forseti hringir.) liggur fyrir í því (Forseti hringir.) frumvarpi sem hér liggur fyrir.