144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er komið mál til umfjöllunar á Alþingi. Ætlunin er að hefja 1. umr. um málið þar sem menn geta skipst á skoðunum. Síðan fer málið til nefndar þar sem það fær efnislega skoðun út frá öllum þeim sjónarmiðum og athugasemdum sem þingmenn vilja koma á framfæri. Menn geta haft skiptar skoðanir um þetta mál, en að bera það fyrir sig að ekki sé hægt að taka það til umfjöllunar fyrr en fyrirframúttekt Ríkisendurskoðunar hafi átt sér stað er fullkomlega fráleitt og á sér engin fordæmi í þingsögunni, hygg ég. Ég held að það hafi aldrei komið fyrir á síðasta kjörtímabili þegar ótal sinnum voru gerðar breytingar á Stjórnarráðinu, þegar ótal sinnum voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi einstakra stofnana að fyrir fram væri gerð krafa um það að Ríkisendurskoðun skoðaði málið. Menn geta kallað eftir þeim upplýsingum, rökum og mótrökum sem fyrir hendi eru í málinu þegar málið er í málsmeðferð í þinginu, en framganga stjórnarandstöðunnar í þessu máli í dag er fullkominn leikaraskapur.