144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki að verið sé að rjúfa þverpólitíska samstöðu um meginmarkmið þróunarsamvinnu enda hafa þau meginmarkmið fyrst og fremst lotið að því hvaða stefnumörkun skuli eiga sér stað á vettvangi, hvernig við skulum útdeila fjármunum og hvaða stefnu við skulum hafa varðandi þau verkefni sem við tökum að okkur. Hér er eingöngu um breytingar á yfirstjórn eða stjórnsýslustofnuninni að ræða. Í raun er ekki verið að breyta neinu í öðru með frumvarpinu. Ákvörðunin byggir á skýrslu utanaðkomandi aðila sem hér hefur verið vitnað í, frá svokallaðri DAC-nefnd og að sjálfsögðu á þeirri reynslu sem þegar er komin á málaflokkinn.

Ég vil ítreka að margar aðrar tillögur koma fram í þeirri skýrslu sem liggur einna helst til grundvallar þessum breytingum. Ég ætla ekki að standa hér og segja hvernig þeir hlutir eiga að vera. Það mun fara í ferli ef það nær fram að ganga sem ég lýsti áðan, starfshópurinn mun starfa áfram og vinna þá að þeim breytingum. Einhverjar (Forseti hringir.) ná kannski fram að ganga, aðrar ekki. En ég er (Forseti hringir.) ekki sammála því að hér sé verið að víkja frá einhverri stefnu sem áður hefur verið um samstarfið.