144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hér í framsöguræðu minni þá er markmiðið með þessum lögum að bæta skipulag og einfalda það um leið, þ.e. að sá ágæti hópur sem vinnur að þróunarmálum starfi og vinni í sömu átt, að við séum að senda inn skilaboð. Við megum ekki gleyma því heldur að þróunarmálin og þróunarsamvinna eru stærsti hluti utanríkisstefnu okkar. Þetta er sá málaflokkur sem líklega fær hvað mestu fjármunina. Þetta er sá málaflokkur sem við erum hvað stoltust af, leggjum áherslu á. Við teljum einfaldlega að það sé mikilvægt, og förum þar með eftir þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni, að sá góði hópur sem vinnur að þessum málum starfi klárlega og fari í sömu átt. Hvort sem hægt er að benda á einhver málefni eða einhverjar uppákomur sem hv. þingmaður hefur nefnt, hann reyndar spurði hér út í ákveðin dæmi, þá finnst mér það ekki öllu skipta þegar við horfum einfaldlega á það að við erum að bæta samstarfið og sameina þessa tvo hópa sem hafa unnið að þróunarmálum einmitt til að tryggja að utanríkisstefna Íslands, hvernig sem hún er á hverjum tíma, birtist í gegnum þróunarsamvinnu og með heildrænum hætti. Það er það sem við viljum leggja áherslu á.

Til þess að svara því jafnframt þá er þetta leið sem langflestir eru að fara í dag einmitt til að ná utan um málaflokkinn í heild. Það eru einhver einstök dæmi um annað, en langflest ríki sem reka þróunarsamvinnu í dag eru að fara þessa leið. (Gripið fram í.) Ég vil bæta því hér inn (Forseti hringir.) að við munum áfram nota nafnið hjá Iceida til þess (Forseti hringir.) að vekja athygli á því og segja þá um leið að vel hafi verið að verki staðið hjá ÞSSÍ.