144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi leiðangur hæstv. ráðherra er farinn að minna svolítið á ferðalag hans til Brussel. Þá fór hann með bréf og vissi ekki hvert erindið var. Nú virðist mér sem hæstv. ráðherra leggi hér fram frumvarp, en hann hefur ekki fært nein sérstök rök fyrir því af hverju þörf er á þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Ég kem þó ekki upp til þess að skæklatogast við hæstv. ráðherra, ég er bara með eina mjög afmarkaða spurningu.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að þetta frumvarp og breytingin sem felst í því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun væri meðal annars gerð vegna ábendinga DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD. Hann herti frekar á því andsvari sínu hér áðan. Ég hef hér skýrslu DAC og ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar í ábendingum DAC kemur þetta fram?