144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að ég og hæstv. ráðherra séum að minnsta kosti sammála um eitt og ég held að allur þingheimur sé honum sammála um að þróunarsamvinna er kannski það mikilvægasta sem íslenska ríkið stendur í og hugsanlega það sem við sem þjóð getum verið stoltust af. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að við þurfum að standa sem best að því.

Einmitt út af því er ég líka sammála hæstv. ráðherra um að við þurfum að hafa sem mesta pólitíska samstöðu um þetta mál. Og það vil ég segja í fullri einlægni við hæstv. ráðherra að ef hann hefði komið til stjórnarandstöðunnar, ef hann hefði komið til Samfylkingarinnar, ef hann hefði komið til utanríkismálanefndar og viljað ræða þetta þá hugsa ég að hann hefði ekki farið bónleiður búðar til. Ég hugsa að menn hefðu gjarnan viljað setjast niður með honum og ræða hvernig væri hægt að ná fram breytingum sem hæstv. ráðherra, hugsanlega í framhaldi af DAC-niðurstöðunni, vildi ná fram. Til þess að segja það alveg skýrt er þetta frumvarp ekkert alvont.

Meginatriði frumvarpsins, eins og kemur fram í bæði ræðu hæstv. ráðherra og sömuleiðis í ýmsum greinum þess, er einfaldlega að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Þess utan er hæstv. ráðherra líka að leggja til ákveðnar breytingar, t.d. á umbúnaði um hina ágætu mislukkuðu þróunarsamvinnunefnd, sem eins og hæstv. ráðherra veit var ekki afrakstur hinna vísu manna sem hugsa í ráðuneytinu heldur varð hún sennilega til vegna togstreitu innan utanríkisnefndanna. Þaðan er það komið. Ég er sammála hæstv. ráðherra að á því þarf að taka með einhverjum öðrum hætti.

Sömuleiðis er ég algjörlega sammála því að það má skýra eitt og annað sem í lögunum er gert en þetta eru allt saman smáatriði. Stóra atriðið í frumvarpinu, sem að sjálfsögðu kemur fram og mest á óvart, er sú atlaga sem ég vil segja að hjarta þróunarsamvinnunnar, sem er Þróunarsamvinnustofnun. Nú finnst mér að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hafi eiginlega skrælt hismið utan af því sem átti að vera kjarninn í máli hæstv. ráðherra með því að spyrja hann áðan um þau einu rök sem hæstv. ráðherra flutti hér fyrir tilurð frumvarpsins, þ.e. hvar er tvíverknaðurinn, hvar er flækjustigið, hvar eru árekstrarnir? Hæstv. ráðherra varð alveg lens, hann sagði það algjörlega skýrt að hann vissi ekki til neinna árekstra, a.m.k. ekki meiri háttar. Hann gat ekki bent á neina skörun og því segi ég það að ég tel í reynd, eins og stundum gerist, að eftir andsvör hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og hæstv. ráðherra væri í reynd hægt að segja: Tökum næsta mál á dagskrá. Vegna þess að málið er fallið, í reynd er það þannig.

Ég tel sömuleiðis og minnist þess ekki að nokkru sinni á minni tíð hafi ráðherra komið fram með umdeilt frumvarp sem var þó það vanreifað að rökum og svo illa búið varðandi upplýsingar að stjórnarandstaðan þyrfti að undirbúa aðkomu sína að málinu með því að leggja fram beiðni um skýrslu með 21 spurningu. Hvers konar spurningar eru það sem stjórnarandstaðan leggur fram? Þær snerta allar kjarna málsins, engin þeirra snertir eitthvað sem hægt er að kalla útúrdúr eða lítilræði. Það eru spurningar eins og: Er líklegt og hægt að sýna fram á sú breyting sem felst í því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun geti bætt gæði þróunarsamvinnu? Ekkert um það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það er spurt: Er þetta líklegt til að spara fjármagn? Það kemur ekki heldur fram í greinargerðinni. Það er spurt: Eru gæðin líkleg til að batna? Er líklegt að það ýti undir nýmæli og nýsköpun, sem sannarlega hefur verið aðall Þróunarsamvinnustofnunar á síðustu árum? Þetta eru grundvallarþættir og enginn þeirra kemur fram í sjálfri greinargerðinni. Hæstv. ráðherra fór með rök sín og ég verð að segja eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði efnislega án þess að gera það, því að pilturinn sá, hv. þingmaður, kann mannasiði, í reynd sagði hann: Kanntu annan, hæstv ráðherra?

Í ræðu ráðherrans kom meðal annars fram að þetta þyrfti að gera til að koma í veg fyrir skörun, skörun á stefnumótun og framkvæmd, draga úr óhagræði, draga úr tvíverknaði í bæði rekstri og stjórn. Hvað segir svo hæstv. ráðherra sjálfur? Hver er dómur hans um það hvernig til hefur tekist? Hæstv. ráðherra má eiga það, þó að hann gangi stundum með þeim hætti um dyr að manni finnst að hann mætti fara varfærnislegar, að hann er ærlegur í hjarta sínu og hann segir það þó að stofnunin hafi staðið sig vel. Hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta, á bls. 8:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið, og hefur margsannað sig í óháðum úttektum.“

Til hvers eru menn þá að fara að breyta kerfi sem var breytt árið 2008? Það er ekki komin full reynsla á það kerfi og hvers vegna væri ekki betra, áður en menn fara með rosalegum fílalátum inn í þessa stofu og brjóta glerið allt, að bíða eftir því að gerð sé úttekt og það sé Ríkisendurskoðun sem geri úttekt á því hvernig tekist hefur til? Það sem mig skiptir mestu máli í þessu öllu saman er auðvitað: Er líklegt að þetta dragi úr eða auki gæði þeirrar þjónustu sem við erum að reyna að veita í gegnum þróunarsamvinnu? Það eru margvísleg rök sem hníga að því að þetta geti dregið úr þeim. Ég ætla ekki að slá því föstu en það er einfaldlega þannig að meira að segja þeir vísu menn sem skrifuðu frumvarpið gera sér grein fyrir þeim möguleika, vegna þess að bent er á það í greinargerðinni að það þurfi m.a. að grípa til endurmenntunar og hafa hana til reiðu fyrir starfsmenn ráðuneytisins vegna þess að um leið og skiptingin á högum þeirra verður sú að þeir taka á herðar sér flutningsskyldu þýðir það auðvitað að þeir munu standa miklu skemur við í þeim póstum og störfum sem lúta að þróunarsamvinnu en hefur gerst í dag.

Í dag hafa menn safnað upp miklum sjóðum reynslu, svo miklum að í úttekt þróunarsamvinnunefndar OECD 2012 er sagt sérstaklega að eftirsóknarvert sé fyrir nefndina að eiga samstarf við Ísland. En það er líklegt að þegar þessi breyting verður, það er alla vega hugsanlegt án þess að ég vilji slá því föstu, dragi það úr þykkt reynslugrunnsins sem starfið hvílir á. Það er líklegt að það verði þynnra smurt, þannig að hægt er að segja að huganlega leiði þetta til þess að gæði starfsins og þjónustunnar verði minni. En það eru engin rök sem koma fram í greinargerðinni eða í ræðu hæstv. ráðherra sem benda til hins gagnstæða. Þvert á móti liggur alveg ljóst fyrir að stofnunin gerir mjög góða hluti.

Mig langar, af því að ég er svolítið fúll út í hæstv. ráðherra fyrir það sem mér finnst eiginlega vera smyglgóss þegar hann ríður á baki DAC-skýrslunnar inn á þing með tillögu um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, að benda honum á að í þeirri skýrslu, bara í niðurstöðum þeirrar skýrslu, er ekki aðeins á einum stað heldur fimm stöðum á tveimur blaðsíðum farið lofsamlegum orðum um Ísland, framlag Íslands og ekki síður skipulagið sem hér ríkir.

Ef menn fara síðan yfir skýrsluna alla sjá þeir að í öllum köflum hennar er þróunarsamvinnunefnd OECD að benda á hluti sem vel fara í skipulaginu sjálfu. Ég vil sérstaklega benda á að í kafla um skipulag og stjórnun kemur fram, og er bókstaflega sagt í mjög blóðhrárri þýðingu sem ég hér stend: Það er góð samvinna millum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar og starfsfólk beggja stofnana er mjög faglegt í sínu starfi. Með öðrum orðum er búið að gera úttekt á Íslandi og stöðu málsins, á stöðu Þróunarsamvinnustofnunar og ráðuneytisins, sem var gerð þegar Ísland gerðist aðili að nefndinni, og niðurstaðan er þessi: Það er ekkert að, kerfið gengur dálítið vel. Það er bent á ákveðna hluti sem ganga sérstaklega vel og síðan er það rauður þráður í gegnum skýrsluna að í ljósi komandi verkefna, í ljósi þeirra verkefna sem stofnunin mun fá með auknum fjárveitingum til hennar þurfi hins vegar að skýra betur bæði skiptingu fjárins og þær tölur eins og þær eru í dag. Stofnunin telur að það sé 60:40 á milli fjölhliða og tvíhliða. Það þarf að skoða. Það þarf að skoða skipulagið og þróunarsamvinnunefndin dregur upp þrjá mismunandi kosti, tekur sérstaklega fram að íslenska fyrirkomulagið falli í reynd ekki undir neitt. En síðar er bent á að vegna ákveðinnar aukningar á þjónustunni þurfi menn meðal annars að skoða hvort menntun og þjálfun núverandi starfsmanna sé nógu góð.

Hvað gerist svo? Það kemur ný ríkisstjórn. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hér algjörlega skýrt og kynnti með mikilli gleði, sem ég ætla kannski ekki að kenna við Þórð frænda en glöð var hún samt, þegar fyrsta lota var tekin á niðurskurði á framlögum til þróunarfjár, 1 milljarður, nú er það að vísu orðið 2,3 milljarðar: Þetta er fyrsta skrefið. Og nú vitum við að hæstv. ráðherra er fyrir hönd hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að taka annað skrefið og það var markmið hennar að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Því miður getur jafnvel utanríkisráðuneytið, sem ég tel af langri reynslu að sé best mannaða ráðuneytið í stjórnsýslunni, ekki hugsað upp rök í greinargerð með tillögu hæstv. ráðherra sem verja frumvarpið eða meginefni frumvarpsins. Jafnvel úrvalsstarfsmenn þess góða ráðuneytis, sem hafa bæði sýnt hugkvæmni í að verja vondan og góðan málstað, geta ekki komið upp með rökin af því að niðurstaða málsins er auðvitað sú að það er trúaratriði, kredduatriði hjá þessari ríkisstjórn að fækka stofnunum og þá þarf það endilega að vera Þróunarsamvinnustofnun sem verður fyrir högginu. Það finnst mér vera mjög dapurleg niðurstaða.

Af hverju hefði verið rétt að fara sér hægt í þetta mál og bíða með frumvarpið og skoða það? Í fyrsta lagi, herra forseti, vegna þess að það er mikilvægt að ná pólitískri samstöðu um málið. Í öðru lagi vegna þess að mikilvægt er að fá álit þeirrar stofnunar sem Alþingi treystir best, Ríkisendurskoðunar, á því hvort rétt sé hjá ríkisstjórninni að fara á þennan hátt gegn öllum prinsippum Ríkisendurskoðunar. Hún hefur predikað það allar götur frá 1991 að gera algjör skil á milli framkvæmdar og stefnumótunar og eftirlitsins, og það er verið að brjóta þetta prinsipp hér. Í þriðja lagi, vegna þess að það liggur fyrir að fram undan er niðurstaða á jafningjarýni DAC-nefndarinnar sem á að vera til árið 2016. Ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu að brýnt væri og mikilvægt að fara þá leið sem hæstv. ráðherra leggur til mundi ég vera til í að skoða mjög rækilega að styðja það. En í dag er það þannig að það hefur enginn óháður aðili komist að þessari niðurstöðu. Hæstv. ráðherra fór með rangt mál þegar hann sagði opinberlega að allar skýrslur sem hefðu fjallað um þetta mál hefðu komist að þeirri niðurstöðu. Það er rangt. Það er rangt að halda því fram að það hafi verið niðurstaðan á úttektinni sem Davíð Oddsson lét framkvæma á sínum tíma. Það er rangt að halda því fram að það hafi verið niðurstaðan á úttektinni sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét framkvæma á sínum tíma, bara svo að það liggi algjörlega ljóst fyrir. Og það er rangt hjá hæstv. ráðherra þegar hann leyfir sér að halda því fram að DAC-skýrslan réttlætti það með einhverjum hætti sem er burðarásinn í frumvarpi hans. Frá upphafi hefur það því legið algjörlega ljóst fyrir að ráðherra hefur haft vondan málstað að verja og hann hefur gripið til rangfærslna. Það er kannski mannlegt og það er hægt að fyrirgefa það í hita leiksins en það undirstrikar hins vegar hversu rökin undir þessu eru léttvæg.

Herra forseti. Ég ítreka aftur að stjórnarandstaðan er reiðubúin til að finna á því flöt að geta á einhvern hátt skapað pólitíska samstöðu um þróunarsamvinnu. Við höfum alltaf reynt það áður. Það tókst mjög vel þegar ég var utanríkisráðherra á sínum tíma, lagði fram þróunarsamvinnuáætlun, lagði fram áætlun um það hvernig við ætluðum að auka við fjárveitingar og það tókst svo vel að það voru allir þingmenn nema einn, að mig minnir, sem greiddu því atkvæði og meira að segja þingið sjálft sló undir nára og framhlóð þá áætlun rækilega.