144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:55]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar sem kemur að seinni spurningu minni eða vangaveltu út frá ræðu þingmannsins. Það er sú hugmynd sem hann fleytir, að í nafni góðrar stjórnsýslu og þess að aðskilja annars vegar framkvæmd og hins vegar eftirlit færi betur á því að flytja verkefni frá ráðuneytinu og til Þróunarsamvinnustofnunar. Mig langar að skilja þingmanninn rétt með það að hann líti svo á og treysti skipulagi Þróunarsamvinnustofnunar til að takast á við stóraukin verkefni, eins og mér heyrist þingmaðurinn segja. Tekur hv. þingmaður ekki líka undir mikilvægi þess að stórkostlega sé spýtt í lófana og bætt í fjárveitingar til þróunarsamvinnu almennt frá því sem nú hefur verið ákveðið?