144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að það sé þörf neinna sérstakra breytinga á stofnanarammanum sjálfum. Það er sagt sérstaklega í þessari úttekt, sem margir hafa vísað til og kennd er við DAC, að samstarfið milli stofnunarinnar og utanríkisráðuneytisins gangi vel. Það er tekið fram að samstarf og samvinna starfsmanna gangi ákaflega vel. Hæstv. ráðherra gat ekki, tvíspurður, nefnt nein dæmi um tvíverknað, sem í framhjáhlaupi er þá dálítið hæpið að setja í greinargerð og geta ekki staðið við. Ég mundi því telja að fyrirkomulagið sé býsna gott. Ég get ekki fullyrt að það sé endilega það besta en það er miklu betra, held ég, en það sem hann leggur til. Það er gott, það skilar árangri, það er hagkvæmt. Það hefur alla vega búið til jarðveg þar sem úr spretta nýmæli sem aðrar þjóðir leita eftir. Aðrar miklu stærri þjóðir hafa komið og talað við utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun um að taka upp og læra af þeim til dæmis varðandi hina velheppnuðu héraðanálgum ÞSSÍ.

Það er tvennt sem ég mundi vilja skoða, sem er minni háttar. Það er pólitísk ákvörðun um deilingu fjár. Ég held að það eigi að ýta undir auknar fjárveitingar til sjálfstæðra félagasamtaka. Það var byrjað á því í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem við sátum bæði í og það var búið að marka þá stefnu með þeim fjárhagsramma sem þingið hafði samþykkt, það mundi stórhækka. Ég tel að það þurfi að gera. Við erum eftirbátar þar.

Hitt er svo þetta bix í kringum samvinnunefndina sem hefur eiginlega gert aðkomu þingsins að „impotent“ bastarði, afsakið, herra forseti, sem hefur ekki leitt til mikillar frjósemi af hálfu þingsins.