144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ábendingu. Eins og ég horfi á þetta þá finnst mér það réttmæt ábending að þingmenn ættu að fjalla meira um þróunarmál og þróunarsamvinnu, en ég tel hins vegar ekki að þetta sé endilega rétta leiðin. Ábendingar hv. þingmanns um að þingmenn fari í hinar og þessar nefndir og ráð ættu líka aðeins að ýta við okkur því að það er ekki sama á hvaða vettvangi þingmenn fjalla um málin. Ég hefði þess vegna talið æskilegra að við gerðum það innan skipulags þingsins með einhverjum hætti. Fimm þingmenn, segir líka hv. þingmaður, og ef við skoðum fordæmin sem við höfum frá ríkisstjórninni er alveg ljóst að ekki er ætlast til þess að allir flokkar eigi fulltrúa í þessari nefnd. Nægir bara að nefna Ríkisútvarpið þar sem sitja sex fulltrúar þingflokka stjórnarflokkanna og þrír frá þeim sem skipa stjórnarandstöðuna og einn flokkur fær ekki að tilnefna fulltrúa. Þannig að það er ekkert sem tryggir þverpólitíska samstöðu í því.

Það sem ég hefði talið áhugavert að ræða væri hvernig við getum gert málefnum þróunarsamvinnu betri skil á vettvangi þingsins því mér finnst það svo sem vera réttmæt ábending. Þá hefði ég talið æskilegast eins og ég sagði áðan að það væri gert á vettvangi utanríkismálanefndar og kannski þyrfti hugsanlega að endurskoða þau hlutverk. Ég átta mig á því að það er stærri breyting og hæstv. utanríkisráðherra hefur væntanlega ekki talið sig umkominn þess að fara að leggja til róttækar breytingar á skipulagi þingsins. Gott og vel, en mér finnst það vera eitthvað sem við þingmenn hljótum að ræða. Ef við viljum auka umfjöllun á Alþingi um þróunarsamvinnu þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvernig við gerum það á vettvangi þingsins.