144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sú grein frumvarpsins sem við ræðum hér sem varðar þróunarsamvinnunefnd er a.m.k. tilraun til þess að skapa einhvers konar virka taug á millum þingsins og þingmanna hvers flokks og þróunarsamvinnunnar. Fyrst menn eru að leggja í þessa sjóferð þá hefði ég hugsanlega haft þetta svolítið öðruvísi og mér finnst í greinargerðinni allt of mikið lagt upp með að þeir 15 manns sem þar eigi að vera eigi að ferðast töluvert, en þar er heldur ekki við hæstv. utanríkisráðherra að sakast því það var náttúrlega áhersla þingsins á sínum tíma, sem mér fannst ekki góð.

En spurning mín í framhaldi af þessu til hv. þingmanns er: Telur hún að sá umbúnaður sem hnýttur er um þessa þróunarsamvinnunefnd verði nægilega virkur og skapi lifandi tengsl á millum þingsins og þróunarsamvinnu? Ég er ekki alveg viss um það. Það væri gaman að fá viðhorf hv. þingmanns til þess.

Af því við vorum að fimbulfamba hér áðan og menn hafa verið að velta því fyrir sér í dag hvaða fordæmi hæstv. ráðherra hefur fyrir þessu þá var ég að reyna að grafa í huga mér eftir einhverri stofnun sem hefði verið lögð inn í ráðuneyti. Ég man ekki eftir neinni. Hins vegar man ég auðvitað eftir því að hæstv. þáverandi forsætisráðherra í bræðiskasti lagði niður stofnun, Þjóðhagsstofnun. Það var mjög honum til vansa og skapaði alls konar erfiðleika fyrir þingið, því áður áttu þingmenn kost á því að fá mikilvægar upplýsingar þaðan milliliðalaust. Það var nú gert með þeim hætti. En það er eina dæmið sem kemst nálægt þessu.