144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Af því að hann situr í utanríkismálanefnd, þar sem þetta mál kemur til umfjöllunar, langar mig að varpa hér fram nokkrum hugleiðingum.

Mér þykir skorta töluverða dýpt í skýrsluna sem á að undirbyggja þá tilfærslu sem verið er að leggja til, þ.e. að færa ÞSSÍ inn í utanríkisráðuneytið. Mér finnst kannski að rannsóknarspurninguna vanti, hver á tilgangurinn að vera? Mér finnst ráðherra ekki hafa fært nægjanleg rök fyrir því og þá ekki heldur að það komi fram hjá Þóri í skýrslunni. Ég velti fyrir mér, af því að verklýsingin er mjög almenn og mér finnst vanta tengingu við þá valkosti sem kynntir eru í skýrslunni. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sama sinnis um að það vanti að sjá fyrir sér árangursmarkmiðin af því að við erum með mælanlegar niðurstöður hjá Þróunarsamvinnustofnun, sem ráðherra fór yfir, og hún hefur staðið sig vel. Það virðist ekki koma fram hér að það vantar þróunarmarkmiðin og tenginguna við það, hvort þingmaðurinn geti verið mér sammála um það.

Síðan langar mig að spyrja hvað honum finnst um þá hugmynd að fækka eigi löndum sem þróunarsamvinnan eigi að ná til. Nú erum við aðallega að tala um þrjú lönd hjá Þróunarsamvinnustofnun, að fækka þeim jafnvel niður í tvö. Ef eitthvað kemur upp á, ef það þarf til dæmis að loka landi, þá höfum við eitt land eftir. Er þetta ásættanlegt að mati þingmannsins?