144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er tillaga sem hefur kannski ekki fengið mikinn hljómgrunn, þ.e. að kerfi árangursstjórnunar verði innleitt í allri þróunarsamvinnu, nái ekki bara til Þróunarsamvinnustofnunar heldur til ráðuneytisins, skólanna, sem hér eru undir, og félagasamtaka. Það er auðvelt að tala um þetta en það er flókið. En ég tek undir að það er góð tillaga og ætti að vera meginverkefni ráðuneytisins. Ég spyr þingmanninn hvort hann telji að það eitt og sér, að svona kerfi verði innleitt, geti leitt til þess að skilvirknin verði meiri og samstarfið verði betra, en það er einmitt það sem ráðherrann hefur áhyggjur af.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Meginhlutverk utanríkisráðuneytisins er hagsmunagæsla fyrir Íslands hönd gagnvart erlendum ríkjum. Mér finnst það svo mikilvægt í þessu, ég er sammála því, að tryggja hagsmuni Íslands í útlöndum. En það er ekki það sem þróunarsamvinnan snýst um. Hún snýst um fátækasta fólkið í heiminum. (Forseti hringir.) Það eru hagsmunir þess sem eru undir. Það er ekki á forsendum okkar, eins og hér hefur komið fram og kemur fram í skýrslunni, (Forseti hringir.) að hagsmunagæslan, þróunarsamvinnan, snýst ekki um það, hún snýst um hagsmuni fátæka fólksins.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sjái þetta (Forseti hringir.) yfirbragð í skýrslunni, ég hef áhyggjur af því.