144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tvennt fannst mér einkar athyglisvert í ræðu hv. þingmanns. Hið fyrra tengdist umfjöllun hans um þróunarsamvinnunefndina og það sem ég gat ekki annað en fundið að væri gagnrýni á pólitíska aðkomu. Hv. þingmaður orðaði það með þeim hætti og mér þætti fróðlegt að heyra hvernig hv. þingmaður telur að rétt væri að binda tengslin við þingið eða stjórnmálin. Þeim sem málaflokknum stýra er náttúrlega mjög umhugað um að hafa góð tengsl við þingið. Af hverju? Við vitum það. Vegna þess að hér liggur fjárlagavaldið. Það er út af fyrir sig algerlega skiljanlegt en fróðlegt væri að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa.

Hitt fannst mér líka mjög merkilegt að hv. þingmaður talaði um að með þeirri stefnu sem birtist í frumvarpinu væri hæstv. ráðherra lagstur í leiðangur sem lægi eiginlega í þveröfuga átt, eins og hv. þingmaður orðaði það, við það sem honum fannst nær lagi. Þetta finnst mér athyglisvert. Er það stefna stjórnmálaflokks hans, Bjartrar framtíðar, eða prívat skoðun hans að hugsanlega kynni að vera farsælla, ef menn á annað borð ætla að gerbreyta verkaskiptingunni, að fara þá leiðina sem Davíð Oddsson og núverandi hæstv. menntamálaráðherra mörkuðu á sinni tíð? Því það var núverandi hæstv. menntamálaráðherra sem var þá potturinn og pannan í því, að minnsta kosti að hnýta niður þau bönd sem lágu eftir þeirri stefnu. Telur hv. þingmaður að það kunni að vera möguleiki í stöðunni og er það skoðun hans og eftir atvikum Bjartrar framtíðar, ef hann hefur rætt það í sínum flokki?