144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessar breytingar í reynd fela í sér nokkra ferð án fyrirheits. Aðkoma þingsins að mörkun stefnu í þróunarsamvinnu er veikt og pólitískt umboð fulltrúa eða þeirra sem nú sitja í þróunarsamvinnunefnd er veikt með þeim hætti að það verða aðeins fimm þingmenn, það verða ekki einu sinni allir þingflokkar sem eiga fulltrúa við borðið.

Við sjáum nú þegar að ríkisstjórnin fer ekki að samþykktri þróunarsamvinnuáætlun, þannig að það vekur verulegar spurningar um aðkomu þingsins að stefnumótuninni. Hv. þingmaður spurði um stefnuna sem við hefðum samþykkt. Það er ekki verið að styrkja grunninn fyrir þverpólitíska samstöðu um stefnuna í þróunarsamvinnu með þessu.

Í annan stað held ég að það sé alveg hægt að framfylgja þróunarsamvinnu með stofnunina innan ráðuneytis rétt eins og fyrir utan. Það er alveg hægt að gera en það er mjög erfitt í íslenskri utanríkisþjónustu sem er mannfá og byggir á flutningsskyldu og þetta eru mjög sérhæfð verkefni og eðlisólík hefðbundinni diplómasíu. Hefðbundin diplómasía, sem felst í hagsmunavörslu fyrir Ísland, er eðlisólík hjálparstarfi og uppbyggingarstarfi í öðrum löndum. Þarna þarf allt aðra hugmyndafræði og áherslur. Það eina sem þetta á sameiginlegt er að það er í útlöndum en það á ekkert sameiginlegt í verkefni. Þetta á ekkert sameiginlegt í hugarfari fólksins sem vinnur verkefnið. Önnur lönd hafa leyst þetta með því að sama fólkið róterar á milli þessara staða. Við höfum ekki þann mannfjölda í utanríkisþjónustunni, því miður, að geta verið með fullnægjandi hópa sem mundu einungis rótera á milli þessara þróunarsamvinnustaða og ekki sinna öðrum verkefnum fyrir utanríkisþjónustuna.