144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega málið að stundum getum við miðað okkur við önnur lönd og stundum ekki og þá þurfum við að horfa á þetta út frá smæðinni og þeim þáttum sem þingmaðurinn kom inn á, en ekki endilega einungis til sparnaðar. Mér hefur fundist það koma aðeins fram í skýrslunni, fundist það vera yfir og allt um kring. Ég tek undir að verkefnin geta átt heima inni í ráðuneytinu en ég tel að það sé ekki til þess fallið að auka faglega dýpt eða árangur okkar í þróunarsamvinnu að setja þetta allt saman í ráðuneytið. Ég mundi frekar vilja sjá verkefnin þarna aukin og spyr þingmanninn hvort hann sé sammála mér í því.

Ég nefndi áðan og ætla að gera það aftur að ráðuneytin sýna ekki beinlínis fram á mælanlegan árangur í hinu og þessu. Það hefur hins vegar Þróunarsamvinnustofnun gert mjög skýrt. Það kom fram hjá ráðherra að þar hefur allt saman gengið mjög vel og fengið mjög góða dóma o.s.frv., þótt vissulega megi betrumbæta þá starfsemi eins og aðra. Mér finnst, og ekki bara mér, meginverkefni ráðuneytisins er auðvitað hagsmunagæsla fyrir land og þjóð gagnvart erlendum ríkjum. Ég hef áhyggjur af því að það ráði för, af því að þróunarstarfsemi snýst í rauninni ekki um hagsmuni okkar Íslendinga heldur um fátæka fólkið og þar vinnum við á forsendum þeirra sem þiggja þróunarsamvinnuna, þ.e. þeirra fátæku, en ekki á forsendum okkar Íslendinga. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn sé sammála mér í því að meiri líkur séu á að þetta geti orðið undir þegar fólk er komið töluvert fjær vettvangi.