144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef um það efasemdir og eins og ég sagði í ræðu minni, og ráðherra kemur kannski inn á það þegar hann lokar 1. umr., finnst mér skrýtið þegar talað er um þingmannanefndir núna, nýjar þingmannanefndir. Í fyrsta lagi, eins og hér hefur verið komið inn á, fá ekki allir þingflokkar fulltrúa í nefndinni miðað við þann fjölda sem nefndur er. Kannski verður því breytt í meðförum utanríkismálanefndar. En mér finnst alla vega það áhyggjuefni ef ekki hefur verið haft samband og samráð við þá nefnd sem nú þegar er starfandi vegna þessa máls. Hvað segir að það breytist eitthvað þegar komin verður einhver önnur þingmannanefnd og allt verður komið inn í ráðuneyti? Ég hef alla vega þá skoðun að fyrst hægt er hunsa einhverja þingmannanefnd núna þá hlýtur það að vera hægt síðar. Ég veit ekki hvort það er endilega til mikilla bóta að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til.

Þess vegna skil ég ekki alveg tilganginn, þessi eina skýrsla virðist vera látin ráða því hvað er sett hér fram og maður spyr sig auðvitað hvaða „agenda“ er þarna á bak við. Ég hef svo sem ekki orðað það öðruvísi en að mér finnist skrýtið þegar ráðherra segir að allt sem gert hafi verið og rannsóknir sem hafi verið gerðar bendi til þess að þetta eigi að vera svona. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hrakti það hér í dag, það væri ekki svo. Og ég las hér upp úr skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur áðan sem benti á að þetta væri ekki gott. Margir utanríkisráðherrar hafa spyrnt við fótum en þessi utanríkisráðherra virðist vera æstur í að gera þetta. Og ég veit ekki hvort embættismennirnir eru að verki þó að ég ætli þeim ekki endilega svo illt að eiga þetta vonda mál sem hér er á ferðinni. En eitthvað býr þarna að baki sem mér finnst (Forseti hringir.) ekki vera skýrt og ekki tekið nægjanlega skýrt fram, hvorki í frumvarpinu né þessari skýrslu.