144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Já, þetta er eitt af því sem við höfum rætt töluvert í vetur vegna þess að það virðist vera að ríkisstjórnin stefni töluvert mikið í þá átt að draga til sín verkefni, þ.e. framkvæmdarvaldið frá þinginu. Hér hafa verið lögð fram frumvörp og mál þar sem beinlínis er lagt til að ráðherrar fái aukin völd í mörgum málum og svo er stjórnarráðsfrumvarpið, sem við höfum rætt töluvert, auðvitað ein leið í því. Ég tek undir að aukin völd ráðherra og þegar verkefni eru dregin svona inn í ráðuneyti hafi í för með sér ógagnsæi og geri hlutina okkur þingmönnum minna sýnilega.

Varðandi það mál sem við ræðum hér, um Þróunarsamvinnustofnun, þá er það stofnun sem skilar okkur reglubundnum árangursmælingum og hún er sérstakur liður á fjárlögum þannig að við höfum miklu meira um hana að segja og við sjáum miklu betur hvað stofnunin er að gera fremur en þegar starfsemin verður komin inn í ráðuneytið. Fyrir utan það, og ég nefndi það ekki áðan, að Þróunarsamvinnustofnun heldur úti gríðarlega góðri heimasíðu og vefriti sem heitir Heimsljós og kemur út vikulega og þar er alveg ógrynni af upplýsingum um starfsemi stofnunarinnar. Ég get ekki séð að utanríkisráðuneytið, þegar starfsemin verður komin þangað inn, geti sinnt því t.d. eitthvað betur en nú er gert, af því að í skýrslunni er m.a. talað um að auka upplýsingaflæði og annað slíkt. Um svona mál þarf að ríkja þverpólitísk sátt með aukinni aðkomu þingmanna í þingsal og mér finnst þetta ekki leiðin til þess.