144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að biðja hv. þingmann að gera hvorki mér né öðrum upp skoðanir. Hv. þingmaður og fleiri þingmenn í dag hafa gert embættismönnum upp ákveðnar hugmyndir og skoðanir. Ekki ætla ég að verja það neitt sérstaklega, embættismenn eru öllu vanir í slíku, en hv. þingmaður veittist hins vegar að þeim er skrifaði skýrsluna, Þóri Guðmundssyni, og taldi hann jafnvel hafa verið með eitthvað annarlegar hugsanir í gangi, að ákvörðun hefði verið mótuð fyrir fram varðandi niðurstöðuna, að niðurstaðan hefði verið fyrir fram ákveðin eða pöntuð. Mig langar að biðja hv. þingmann að rökstyðja það.