144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því ef hæstv. ráðherra hefur fundist ég vega eitthvað sérstaklega að honum. Ég hef sagt að mér finnst þetta skrýtið, og ég las upp það sem dregið var fram á fréttavef í dag þar sem ráðuneytisstjórar neituðu að skrifa undir, staðgengill ráðuneytisstjóra neitar að skrifa undir. Það er ekki ég sem segi það, ég les það upp. (Gripið fram í.) Það er hluti af því að maður fer að velta því fyrir sér hvort embættismannakerfið ráði eða eingöngu vilji ráðherra og ríkisstjórnar. Það er ekkert óeðlilegt við að maður velti því fyrir sér. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gera fólki upp skoðanir.

Varðandi skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem hér hefur verið rædd og eingöngu undirbyggir málið sem hæstv. ráðherra leggur fram, þá velti ég því fyrir mér hvort niðurstaðan sé fyrir fram gefin, vegna þess að hún er algjörlega í andstöðu við aðra niðurstöðu sem fær ekkert vægi. Mér finnst vanta dýptina, rannsóknarspurninguna, og mér finnst, eins og ég rakti í máli mínu hafi ráðherrann hlustað, ekki vera til staðar greining á því hvernig á að ná fram þeim markmiðum sem þarna eru sett, sem eiga að undirbyggja þetta. Það er ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst þetta. Sumt í skýrslunni er mjög gott, t.d. um málefnið sem sá skýrsluna skrifaði þekkir sjálfur af eigin raun mjög vel, mér finnst þeir kaflar afar góðir. Mér finnst annað minna gott og mér finnst ekki nægjanlega mikil sýn vera til staðar og þyrfti að vera, og það hafa fleiri hér dregið í efa hvort aðeins ein niðurstaða dugi, við hefðum átt að fá fleiri niðurstöður en þessa einu. Það er það sem ég varpa fram og mér hefði fundist það betra, skýrsluhöfundar vegna og ráðherra vegna, vegna þess að hann sagði jú sjálfur að máls hans byggði eingöngu á þessari undirstöðu. Það hefði verið betra fyrir málið í heild sinni og fyrir skýrsluna.