144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér er vandi á höndum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson greindi orðaskipti okkar hæstv. ráðherra í andsvörum áðan á þann veg að ég hefði spurt þannig spurninga og svör hæstv. ráðherra verið á þann hátt að í rauninni væri búið að afhjúpa þetta mál og meira þyrfti ekki að segja um það, svo beinskeyttar hafi spurningar mínar verið. Ég hef sterka tilhneigingu til að taka undir þá greiningu hv. þingmanns og verð því að líta á það sem ákveðna mótsögn að ég sé kominn upp í pontu til að segja meira, ef ég er sammála því að ekki hafi þurft að segja meira.

Ég get tekið hv. þm. Össur Skarphéðinsson mér til fyrirmyndar vegna þess að hann var líka með býsna góða ræðu áðan þar sem hann afhjúpaði ýmislegt í þessum málatilbúnaði öllum, t.d. að skýrslur þróunarsamvinnunefndar OECD/DAC og úttektir á þróunarsamvinnufyrirkomulagi Íslendinga væru alls ekki þess eðlis að í skýrslugerðinni væri farið fram á það á nokkurn hátt að Þróunarsamvinnustofnun yrði lögð niður. Það eru líka þannig rök í málinu að mér finnst liggja við að ekki þurfi að segja meira, en samt hefur hv. þingmaður sagt ýmislegt fleira. Það er nefnilega ýmislegt um málið að segja.

Mér finnst þetta ótrúlega skrýtið mál. Sama hvað ég reyni þá skil ég ekki alveg af hverju þarf að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa starfsemi hennar yfir í ráðuneytið. Mér finnst það vera stílbrot í því hvernig við hugsum stjórnsýsluna almennt í öðrum málum. Ein röksemdin sem er nefnd er að þróunarsamvinna sé eitt af lykilhlutverkum, lykilmálasviðum utanríkisráðuneytisins. Maður getur líka sagt: Skattamál og skattinnheimta eru meðal lykilhlutverka fjármálaráðuneytisins. Samt mundi manni aldrei detta í hug, og líklega dettur engum það í hug, að færa ríkisskattstjóra inn í fjármálaráðuneytið og þá umsýslu alla. Sama gildir um aðrar stofnanir, Samgöngustofu, Vegagerðina og þar fram eftir götum. Það eru margir augljósir kostir við að hafa mikilvæga og flókna málaflokka og umsýslu mála í sérstakri stofnun. Hún heyri undir ráðuneytið og ráðuneytið hafi ákveðið stefnumótunarhlutverk en stofnunin sjái um framkvæmdina.

Ég hefði haldið að frekar væri skynsamlegt að efla stofnunina ef menn vilja gefa í í þróunarsamvinnu, því að það er ýmislegt í greinargerð frumvarpsins sem gefur í skyn að þróunarsamvinna og þróunarmál muni jafnvel verða umsvifameiri þáttur í starfi utanríkisþjónustunnar á komandi árum. Ef það er rétt eru í mínum huga röksemdir fyrir því að efla stofnunina og færa þessi mál þangað. Það er ákveðin tortryggni undirliggjandi, alla vega í mínum huga.

Það var samþykkt á síðasta kjörtímabili mjög metnaðarfull áætlun í þróunarsamvinnumálum með þingsályktunartillögu á Alþingi. Það var gert á krepputímum, á mjög erfiðum tímum í ríkisfjármálum og í þjóðlífinu. Til grundvallar lá vilji þingsins, þingmanna, til að standa vel að þróunarsamvinnu þó að kreppi að innan lands, þetta sé það mikilvægur málaflokkur og mikilvægt að Íslendingar láti ekki sitt eftir liggja þótt tímar séu erfiðir innan lands, við stöndum okkar plikt. Þessi þróunarsamvinnuáætlun, sem var mjög metnaðarfull, var samþykkt.

Núverandi ríkisstjórn dró mjög í land, dró mjög til baka allt það sem hafði verið samþykkt í þeirri áætlun. Meðal annars var haft eftir sumum liðsmönnum stjórnarflokkanna að þeir teldu ekki ástæðu til að setja mikið í þróunarmál meðan litlir peningar væru til innan lands í ýmsa nauðsynlega hluti hér. Maður veltir auðvitað fyrir sér: Skref í hvaða átt er það að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og flytja þá starfsemi í ráðuneytið? Er það skref í þá átt að minnka þróunarsamvinnu enn frekar og vægi hennar? Mér finnst í öllu falli að setja þurfi þá spurningu upp á borðið og ræða hana í ljósi þess hvað ríkisstjórnin hefur þó gert í þróunarsamvinnumálum það sem af er kjörtímabilinu og í ljósi þess hvaða orð hafa fallið um þróunarsamvinnu. Það er mikilvægt að sé alveg skýrt. Liður í hverju er þetta? Er þetta liður í því að minnka þróunarsamvinnu og vægi hennar eða liður í að auka hana?

Mér er mjög annt um þróunarsamvinnu og ætla að gera ráð fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra sé það líka og mörgum þingmönnum, og annt um það að Íslendingar standi vel að þróunarsamvinnumálum og séu ekki eftirbátar annarra þjóða. Þegar ég hugsa um það hvernig við ættum að auka þróunarsamvinnu og standa vel að verki verð ég að viðurkenna að það er ekki fyrsta hugmyndin sem kemur upp í hugann eða eitthvað sem er rökrétt skref að færa þróunarsamvinnuna, tvíhliða þróunarsamvinnuna í ráðuneytið. Mér finnst það ekki hljóma eins og mjög framsækið skref eða sem liður í uppbyggingu á málaflokknum. Ég held að við mundum gera flestum málasviðum sem við viljum leggja áherslu á, t.d. vegagerð og skattamálum, óleik með því að gera það sama, með því að færa Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið og gera hana að einhverri deild þar til að mynda. Ég held að ef við lítum yfir málasviðin sé mjög erfitt að sjá að það væri í einhverjum tilvikum beinlínis til bóta fyrir mjög umsvifamikinn og mikilvægan málaflokk að færa hann í ráðuneyti.

Við sem fórum fram á beiðni um skýrslu til utanríkisráðherra um skipulag þróunarsamvinnu fórum fram á að nefnd væru dæmi um það hvenær svona skref hefði verið tekið í samfélaginu og af hverju hefði þurft að taka það og hvort það hefði verið til bóta.

Það er eftirtektarvert í þessu máli um þróunarsamvinnu að ekki er leitast eftir pólitískri samstöðu, það er ekki pólitískt samráð. Ég skil ekki alveg af hverju það er ekki gert, vegna þess að nú var það gert á farsælan hátt árið 2008 þegar var farið í umsvifamiklar breytingar á þessari löggjöf og umgjörð allri. Það var mjög farsælt allt saman og við erum í samráði um ýmsa aðra dálítið svipaða málaflokka, t.d. innflytjendamál og útlendingamál. Hv. þm. Óttarr Proppé leiðir þverpólitíska vinnu í því í innanríkisráðuneytinu að endursmíða lagaumgjörð í útlendingamálum, innflytjendamálum. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir leiðir, að mig minnir, nefnd um neytendamál og lagalega umgjörð þeirra mála. Er ekki alltaf betra að gera hlutina þannig? Ég geri ekki þá kröfu að þingmönnum Bjartrar framtíðar sé falið í öllum tilvikum að leiða slíka vinnu, en þverpólitíska samráðið, er það ekki gott? Og af hverju ekki þarna? Ég fatta það ekki alveg.

Það er svolítið þversagnakennt í rökstuðningi með málinu að í raun er mjög skýrt kveðið að orði um að Þróunarsamvinnustofnun hafi staðið sig mjög vel. Það virðist ekki vera kveikjan að þessu frumvarpi. Samt er talað um í greinargerðinni að leysa þurfi ýmsan vanda, t.d. þurfi að samhæfa betur þróunarsamvinnu og, eins og ég vék að í spurningu minni til ráðherrans í andsvari áðan, tryggja að menn tali einum rómi í utanríkismálum og þegar kemur að þróunarsamvinnu. En það vantar algjörlega í greinargerðina dæmi um að framkvæmdin sé ekki í lagi eins og hún er núna. Maður skilur ekki alveg hvað verið er að laga. Það kemur ekki almennilega fram þarna.

Það er líka mjög óljóst til dæmis hvort þessum málum yrði betur komið innan ráðuneytisins með tilliti til eftirlits og hvort það verður faglega staðið að því að mæla árangur af öllu þróunarstarfi, og hvort ráðuneytið getur staðið sig betur en Þróunarsamvinnustofnun núna í því að ná mælanlegum árangri.

Annað sem mér finnst einkenna ráðuneyti umfram stofnanir er að ráðuneyti eru lokaðri, ég held að maður geti sagt það án þess að móðga nokkurn. Ráðuneyti eru ekki beinlínis flaggskip frjálslegrar stjórnsýslu. Það er oft erfitt fyrir borgarana að nálgast embættismenn í ráðuneytum. Kannski á það að vera þannig að hluta til, ráðuneytin þurfa starfsfrið og þar innan borðs eru fjárlagaskrifstofur. Það er ekki hlaupið að því til að mynda í fjármálaráðuneytinu, á fjárlagaskrifstofunni að ná tali af mönnum. Í velferðarráðuneytinu er einhver sem sér um málefni fatlaðra og það er ekki á hverjum degi sem menn ná áheyrn þeirra aðila. Í landbúnaðarráðuneytinu er einhver að hugsa um lífræna ræktun og svoleiðis, en fáir vita hver hann er. Þið vitið hvernig þetta er. Þetta er eðli ráðuneytanna.

Þróunarsamvinnustofnun er ekki svona og stofnanirnar eru ekki svona. Þær eru opnari og þær eiga að vera það og þær geta það betur. Sem dæmi má nefna að Þróunarsamvinnustofnun gefur út vefrit. Maður fær það í pósthólfið sitt hérna. Maður fær upplýsingar um það hvað Íslendingar eru að gera í þróunarsamvinnumálum, alla vega í tvíhliða verkefnum, og maður fær meiri skilning á mikilvægi þeirra. Stofnunin sér um ákveðin almannatengsl í þágu vekefnisins. Þetta er eitt dæmi um það hversu mikilvægt það getur verið að stofnun sé undir ráðuneyti, sem hefur kannski frjálsari hendur, sem sér um málaflokkinn. Lykilatriðið er náttúrlega að maður veit ekki alveg hvað er að í þessu núna.

Það er vísað í skýrslu Þóris Guðmundssonar og úttekt hans á þessu fyrirkomulagi. Hann leggur vissulega til að Þróunarsamvinnustofnun sé færð inn í ráðuneytið. En þegar ég les úttektina yfir, og þó að ég beri mikla virðingu fyrir viðkomandi, finnst mér hann hafa of mikla trú á ráðuneytinu fyrir hönd þessa málaflokks. Svo finnst mér líka að þótt einn maður skrifi skýrslu eða úttekt, og hún getur verið ágæt, sé það engan veginn nóg í þessu. Mér finnst að leita þurfi frekara álits og mér finnst að bíða þurfi eftir næstu úttekt þróunarsamvinnunefndar OECD eða DAC á því hvernig fyrirkomulagið er núna. Mér finnst þetta svolítið skrýtið. Einn maður skrifar úttekt fyrir hönd ráðuneytisins, sem er alveg athyglisverð og tillagan vel útfærð hjá honum. Hann skilar henni, að mig minnir, í júní eða ágúst 2014, og þetta er komið hérna strax sem frumvarp. Það er ekkert pólitískt samráð og ekkert samráð við aðra og maður veltir fyrir sér: Hvað með aðrar skýrslur, sem eru margar mjög vandaðar og unnar í yfirgripsmiklu samráði stjórnmála og atvinnulífs? Hér var til dæmis heil stjórnarskrá unnin á lýðræðislegan hátt og samt er ekkert vandamál að ýta henni til hliðar eða tillögum um uppbyggingu græna hagkerfisins (Forseti hringir.) og skapandi greina og hitt og þetta, tillögur sem voru unnar af urmul af fólki.(Forseti hringir.) Ef þær fengju jafn mikla hraðferð í gegnum þingið og þetta álit Þóris Guðmundssonar væri margt mjög gott.