144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi sem dæmi að ef farið væri að því fordæmi sem er að finna í þessu frumvarpi mætti búast við því að innan skamms yrðu, án þess að nokkur segði neitt, lagðar aðrar stofnanir inn í ráðuneyti. Hún nefndi nokkrar af þeim stofnunum sem eru undir því ráðuneyti sem hv. þingmaður stýrði meðan hún var ráðherra.

Mig langar að nefna eitt sögulegt dæmi. Fiskistofa varð til í sjávarútvegsráðuneytinu. Hún var partur af sjávarútvegsráðuneytinu. Hún var tekin út úr því vegna þess að mönnum fannst ankannalegt að stofnun af því tagi væri þar inni. Vegna hvers? Meðal annars vegna þess að kannski er það eðli þeirrar stofnunar umfram aðra að kveða upp marga úrskurði og veita leyfi sem þarf að vera hægt að skjóta málum til.

Komum þá aftur að Þróunarsamvinnustofnun og ráðuneytinu og hvernig það útdeilir fé. Í tíð síðustu ríkisstjórnar varð töluvert mikil aukning á þeirri hlutdeild sem fór til sjálfstæðra félagasamtaka. Það var ekki sérstaklega vegna þess að sú ríkisstjórn væri svo góð við sjálfstæð félagasamtök heldur hefur þróunin verið þannig í alþjóðlegri þróunarsamvinnu að æ ríkari hlutdeild af fénu er veitt á þann hátt. Í DAC-skýrslunni sem við höfum nefnt svo oft hérna kemur skýrt fram að við erum þar eftirbátar. Planið var samkvæmt þeirri áætlun sem enn er í gangi að auka það. Þá liggur alveg ljóst fyrir, vegna þess að það er gert á grundvelli ákveðinna skilyrða sem urðu æ strangari og formfastari, meiri formfesta í þeim þegar leið á síðasta kjörtímabil, að einhvern tíma mun koma að því og fyrr en varir að menn vilja skjóta niðurstöðunni eitthvert. Þess vegna taldi ég þörf á því þegar fram í sækti að færa þetta yfir til ÞSSÍ. Hvað á það að gera í framtíðinni þegar svona mál koma upp?

Ég nota það til að undirstrika að þetta gengur ekki upp samkvæmt stjórnsýslulegum veruleika. (Forseti hringir.) Einhvers staðar þurfa borgararnir í framtíðinni að geta skotið máli sínu, en það er ekki hægt í þessu tilfelli.