144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat í ræðu minni og fram hefur komið í umræðunum í kvöld eru þetta í raun og veru meira en getgátur, þetta eru í raun og veru dylgjur og af hendi ráðherrans er það óboðlegt. Það gengur ekki að gera því skóna að stofnun standi sig ekki án þess að undirbyggja það með dæmum eða einhvers konar úttektum. Það gengur bara ekki sem greinargerð frá ráðherra. Það hljóta allir að átta sig á því þannig að ég tek undir það með hv. þingmanni.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er auðvitað mikilvægt að nálgast öll þingmál með jákvæðum hætti og ég held að það sé útgangspunktur okkar allra að gera það. Hins vegar dregst smám saman upp mynd, það er það sem við horfum á núna þegar kjörtímabilið er um það bil hálfnað að það er að dragast upp ákveðin mynd. Þetta mál eitt og sér er því ekki til marks um vinnubrögð, heildarsýn eða hvað það nú er hjá þessum tiltekna ráðherra heldur um vinnubrögð og nálgun ríkisstjórnarinnar eins og hún leggur sig, tilviljanakennd og illa undirbyggð þingmál hvert á fætur öðru sem ýmist eru rekin til baka eða verða afvelta í nefndum o.s.frv. Þetta er því miður eitt af þeim málum.

Hvað töluðum við lengi hér um náttúrupassann og hvað er að frétta af því máli? Það eru fleiri og fleiri mál sem við gætum nefnt sem koma hingað í þingið eins og fullbúin stjórnarfrumvörp og virðast ekki einu sinni hafa fengið krítíska umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna, sem mér sýnist alla vega miðað við bréf hæstv. ráðherra í síðustu viku að sé bara einhver stimpill fyrir framkvæmdarvaldið. Ekki hafa þau staldrað við hversu vanbúið þetta mál er, eða hvað? Eða er búið að yfirfara þetta mál? Er þetta eftir (Forseti hringir.) umbætur? Ég veit það ekki. (Forseti hringir.) En þetta er sannarlega ekki mál sem nokkur sómi er að.