144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar eftir að ég kynntist Stjórnarráðinu sjálf að veruleg þörf sé á því að styrkja ráðuneytin og þá er ég ekki að tala um með því að bæta við verkefnum heldur er ég að tala um að styrkja ráðuneytin eins og þau eru til að auka málshraðann, til að auka réttaröryggi borgaranna. Talað var um það í löngu máli í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í niðurstöðunni eftir þá vinnu að styrkja þyrfti stjórnsýsluna. Við höfum ekki staðið okkur nægilega vel í því og núverandi ríkisstjórn skar niður öll ráðuneytin bara einhendis um 5% í fyrra, í raun og veru tilviljanakennt, sem þau þurftu svo að bregðast við sjálf. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni alveg burt séð frá þessu máli.

En af því að hv. þingmaður spurði hvort það væri þannig að fólk talaði ekki saman, já, það er þannig. Það er eins og það sé engin yfirsýn og engin verkstjórn.