144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega þannig að eitt af því sem skiptir máli í stjórnmálum er að muna og halda orðum til haga. Núna er að koma á daginn að samstarfsyfirlýsing þessarar tilteknu ríkisstjórnar er að snúast upp í andhverfu sína og hún er í rauninni að verða plagg sem bítur vegna þess hversu fáránlegt það er orðið, vegna þess hversu ótrúlega mótsagnakennt það er að halda því fram að ríkisstjórnin hafi lagt upp með þá áætlun að virkja samtakamátt og draga úr átökum í samfélaginu. Tveimur árum síðar er ferillinn orðinn svo magnaður og málin orðin svo mörg að maður nær ekki að telja þau upp í einu tveggja mínútna andsvari. Og það er orðið þannig að á mannamótum þarf maður ekki annað en að lesa upp þessa einu setningu, maður þarf ekki einu sinni að fylgja henni eftir, vegna þess að þá er öllum ljóst hversu afhjúpuð ríkisstjórnin er í því að vera í raun og veru ríkisstjórn ófriðar í hverju málinu á fætur öðru.

Fólk þarf að bera ábyrgð á orðum sínum og það er auðvitað hlutverk okkar að halda fólki við efnið, það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að draga fram þegar ekki fara saman orð og athafnir og því miður fyrir Ísland hafa þau tilefni verið býsna mörg.