144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega þannig að ef það væru bara stjórnsýsluviðmið sem væru undir þá væri það kannski einfalt, en við erum hér líka að tala um ógurlega dýrmætt innihald. Í þessari umræðu til dæmis, sem hefur varað hér í allan dag og klukkan er að ganga tíu, hefur ekki einn einasti sjálfstæðismaður tekið til máls nema í einu andsvari, hv. þm. Birgir Ármannsson, sem er formaður nefndarinnar sem tekur við málinu og hinn stjórnarflokkurinn er með hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur ekki séð ástæðu til að halda hér ræðu. Hvernig eigum við að ljúka 1. umr. ef við fáum ekki umræðu við neinn sjálfstæðismann og hæstv. utanríkisráðherra situr þarna og tekur ekki þátt í umræðunum. Meðan svo er er okkur nokkur vandi á höndum, en við þurfum augljóslega að tala skýrt vegna þess að við þurfum að ná út og almenningur þarf að vita hvert ástandið í íslenska þinginu er.