144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins að því sem sagt var síðast af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Það er náttúrlega með ólíkindum að hér skuli ekki einn einasti þingmaður sem tilheyrir stjórnarflokkunum taka til máls og reyna þá að minnsta kosti að koma með sýn á málið af sinni hálfu eða verja ráðherrann í umræðunni og veita honum málefnalegan stuðning í því sem hann er að gera. Það fær mann til að velta því fyrir sér hvort sama sé á ferðinni og virðist vera í fjölmörgum öðrum málum sem þessi ríkisstjórn kemur með hingað inn — eða ekki því að eins og við þekkjum líka eiga þeir til að koma ekki með málin hingað — að menn ráðfæri sig ekki sérstaklega við þingið, hvorki sitt eigið fólk né okkur sem ekki tilheyrum stjórnarflokkunum. Menn sjá greinilega enga ástæðu til að vera hér og taka undir eða fylgja málinu eftir með ráðherranum.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið mikið í þessum málaflokki. Ég hef fylgst með þeim málum og varð óskaplega glöð þegar samþykkt var heildarlöggjöf um málaflokkinn árið 2008, þannig að betur væri hægt að glöggva sig á honum. Honum voru sett skýr markmið og umgjörð til að fylgja og þar með stefna. Þess vegna undra ég mig á því að svo skömmu síðar skuli menn ætla að taka þá U-beygju sem verið er að boða án þess að fram hafi farið úttekt til dæmis Ríkisendurskoðunar á framkvæmd þeirra laga sem samþykkt voru 2008. Stjórnarandstaðan hefur óskað eftir því að slík úttekt fari fram og forseti þingsins hefur fallist á það. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa sent bréf til Ríkisendurskoðunar þar sem hún er beðin um að meta þessa breytingu. Ég á óskaplega erfitt með að skilja hvers vegna hæstv. ráðherra gengur svona hart fram.

Eins og ég sagði áðan er í fyrsta lagi stutt síðan heildarlöggjöf um málaflokkinn var samþykkt sem fól í sér að stofnunin fékk töluvert meiri sveigjanleika, gerðar voru töluverðar breytingar á málaflokknum sem hafa sýnt sig að hafa reynst vel.

Í öðru lagi er ljóst að óskað hefur verið eftir því af hálfu þingsins að fram fari mat á niðurlagningu stofnunarinnar, þ.e. stjórnsýsluúttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar, og beðið er eftir henni.

Í þriðja lagi hefur komið fram í umræðunni að þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC svokölluð sem rætt hefur verið töluvert um hér, vinni að jafningjaúttekt á Þróunarsamvinnustofnun sem á að vera lokið 2016. Ég skil því ekki hvers vegna hæstv. ráðherra vill ekki draga djúpt andann og bíða eftir því að úttektirnar verði gerðar. Það er ekkert sem hastar. Á sama tíma getum við reynt að ná samstöðu um málaflokkinn, af því að það skiptir máli að við séum samstiga í þeim efnum. Þetta er málaflokkur sem við eigum að geta verið samstiga um og menn hafa lagt mikið á sig á undanförnum árum og áratugum til að ná samstöðu í honum. En hæstv. ráðherra virðist í því eins og svo mörgu öðru vera nokkuð saman um og mottóið sem gildir er: Mér finnst eitthvað og þá verður það þannig. Það getur ekki endað vel. Ég skil ekki af hverju menn eru tilbúnir að hendast af stað í svona án þess að vanda til verka. Það sem er líka að baki, og það fær mig til að velta fyrir mér hvers vegna mönnum liggur svona á, er að auk þeirra atriða sem ég nefndi áðan hafa ólíkir aðilar unnið skýrslur og úttektir á málaflokknum og ekki komist að sömu niðurstöðu. Þetta eru aðilar sem ég virði mikils, bæði á sviði þróunarmála og stjórnsýslu, þ.e. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Þórir Guðmundsson ásamt fleirum sem hafa látið sig málið varða eða komið að úttektum á því. Menn hafa ekki allir komist að sömu niðurstöðu. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna ekki má bíða eftir jafningjamatinu, hvers vegna ekki má bíða eftir stjórnsýsluúttektinni, sjá hvað það leiðir í ljós og taka það síðan allt saman, vinna úr því og reyna að ná sátt um framtíðarfyrirkomulag þessara mála. Það þarf ekki að fara svona geyst fram. Það er alger óþarfi.

Maður veltir fyrir sér hvort það sé eina ferðina enn þannig að af því að Samfylkingin kom einhvern tíma að þessu máli og kom að því að gera heildarlöggjöfina þurfi endilega að gera á því breytingar. Við höfum heyrt áður að ómögulegt sé að sá flokkur hafi skilið eitthvað eftir sig og best sé að útrýma því. Rökin fyrir þessu eru alla vega ekki sterkari en svo að það hvarflar að manni.

Hér hafa komið fram ýmis sjónarmið hvað varðar málaflokkinn. Það hryggir mig og marga aðra, og það hefur komið fram í umræðunni, að svo virðist sem þessi ríkisstjórn ætli ekki að fylgja þeirri þingsályktun sem kveður á um ákveðna áætlun um framlög til þróunarmála, ekki frekar en ýmsum öðrum þingsályktunum sem samþykktar hafa verið á öðrum þingum. Vandinn er sá með þá þingsályktun að hún hefur lagastoð. Mönnum ber að leggja hana fram og ef þeim ber að leggja hana fram skulum við gera ráð fyrir því að þeim beri að fylgja henni. Ég skil ekki hvernig málum er háttað hvað þingsályktanir varðar ef þeim sem hafa raunverulega lagastoð er ekki einu sinni fylgt. Það er sama vinnulag gagnvart rammaáætlun. Þar er þingsályktun sem hefur raunverulega lagastoð, sem er með verndarflokk og kveðið er á um í lögum hvernig eigi að fara með þann hluta þingsályktunarinnar, en menn ákveða bara að horfa fram hjá því. Sama á við um þingsályktunina um þróunaraðstoð, henni er ekki fylgt. Þegar við á Alþingi erum með framkvæmdarvald sem ekki fylgir samþykktum okkar hljótum við að þurfa að hugsa okkar gang hvað samskiptin við framkvæmdarvaldið varðar og hver verkaskiptingin á að vera til lengri tíma. Ég hef áhyggjur af því að mér finnst þetta grafa undan lýðræðinu á þann hátt að verið er að grafa undan trúverðugleika stofnananna, þ.e. löggjafans og framkvæmdarvaldsins, með þessari umgengni um þingsályktanir og löggjöf.

Annað vil ég nefna sem ég átta mig ekki alveg á, og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur nefnt það, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og fleiri hafa komið inn á það, og það er sú undarlega tilhögun sem verið er að leggja til, að stofnun sem er framkvæmdaraðili skuli eiga að koma inn í ráðuneytið. Stofnanir sem eru með skýrt skilgreind verkefni, eru með löggjöf sem heldur utan um það og veitir þeim sýn á hvert eigi að fara og skýr skilaboð um hver verkefnin eru eiga að fara inn í ráðuneyti. Ég man ekki eftir slíkum dæmum. Ég hef verið í ráðuneyti sem ráðherra og þetta er eins og ef við í iðnaðarráðuneytinu hefðum á sínum tíma ákveðið að best væri að Ferðamálastofa eða Nýsköpunarmiðstöð kæmu inn í ráðuneyti. Þetta fer ekki saman. Það er ekkert eðlilegt við það að svona stofnanir fari rétt sisvona inn í ráðuneyti. Hvað erum við þá að segja? Erum við þá að segja að ráðuneytin eigi að vera einhvers konar sambland af eftirlitsaðila, framkvæmdaraðila og stefnumótunaraðila? Þá eru ráðuneytin farin að grautast í málunum frá öllum hliðum. Það er miklu hreinlegra að vera með stefnumótun og eftirlit hjá ráðuneytunum en láta stofnanir um framkvæmdina. Svo geta menn auðvitað skoðað hvort hægt sé að styrkja stofnanirnar á einhvern hátt. Í þessi tilfelli gæti vel átt við að færa fleiri verkefni til Þróunarsamvinnustofnunar, frekar en að fara í þessa átt.

Ég er verulega hugsi yfir þessum þætti málsins og mundi vilja að hæstv. ráðherra gæfi okkur dæmi þar sem málum er svona fyrir komið eða að minnsta kosti færi yfir það og segði okkur hvort þetta sé upphafið að því að stofnanir verði hjá þessari ríkisstjórn teknar inn í ráðuneyti í auknum mæli. Þá horfum við upp á gjörbreytta stjórnsýslu. Það á að segja okkur ef þetta er hluti af áætlun um slíkt, hvað menn ætli að vinna með því og hvar það eigi að enda. Það er ekki hægt að byrja á einhverju svona án þess að vita hvernig það á að enda.

Mér verður hugsað til fleiri svona stofnana og sjóða. Maður hugsar til Tækniþróunarsjóðs, Rannís. Það eru alls kyns stofnanir sem framkvæma fyrir hönd ráðuneyta, sem eiga ekki heima í ráðuneytum. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé hér, a.m.k. þarf að rökstyðja það töluvert betur en gert er í frumvarpinu.

Að mínu mati hefur utanríkisráðuneytið að mörgu leyti orðið fyrir meiri niðurskurði en ráðuneytið á skilið á undanförnum árum og missirum, ekki síst á síðastliðnum tveimur árum. Það er beinlínis þannig að forustumenn fjárlaganefndar, sem eru fulltrúar stjórnarflokkanna tveggja, hafa ákveðið að láta utanríkisráðuneytið bera mun meiri niðurskurð en fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið hafa lagt til. Það hefur mér þótt slæmt vegna þess að utanríkisráðuneytið er með mjög mörg mikilvæg verkefni á sínum höndum, þar með talda þróunarsamvinnu sem við eigum að leggja myndarlega til sem ein efnaðasta þjóð í heimi. Maður veltir fyrir sér hvort menn sjái hagræðingu í því að taka stofnanir inn í ráðuneytið vegna niðurskurðarins sem ráðuneytið hefur orðið fyrir. Hvaða afleiðingar mun það hafa fyrir málaflokkana? Mér finnst við líka þurfa að skoða málið í því ljósi. Það er alla vega ákveðin vörn í bili fyrir málaflokkinn gagnvart fjárlaganefnd og forustufólkinu í fjárlaganefnd að hafa hann í sérstakri stofnun, miðað við að utanríkismálanefnd virðist vera í niðurskurðarsigtinu hjá þeim. Ég verð að segja að ég botna ekkert í þessum asa í málinu. Ég vona að hæstv. ráðherra sjái að sér og segi okkur að hann sé tilbúinn til að bíða eftir því að vinna fari fram af hálfu DAC og Ríkisendurskoðunar. Ég vona að hæstv. ráðherra og fleiri taki þátt í umræðunni með okkur og leggi sig fram við að reyna að svara þeim spurningum sem hafa komið fram.

Það er ekki hægt dag eftir dag og kvöld eftir kvöld í hverju málinu á fætur öðru að afgreiða stjórnarandstöðuna sem hér stendur og reynir að vinna vinnuna sína með því að virða hana ekki viðlits, svara ekki spurningum og koma ekki með viðbrögð við athugasemdum eða nokkurn skapaðan hlut. Menn bregðast hlutverki sínu á þingi dag eftir dag með þeirri framkomu. Ég ætla rétt að vona að menn taki sér tak, komi hingað og eigi við okkur samtal um málið. Þetta eru aðkallandi og mikilvægar spurningar sem hér koma fram. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra aftur, og vona að hann svari því í lokaræðu eða einhvern tíma í dag, hvort hann sé ekki tilbúinn til að bíða eftir niðurstöðum þeirra úttekta sem ég nefndi.