144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að stjórnarandstaðan er hér á vettvangi til þess að reyna að reifa þessi mál því að það hlýtur að vekja spurningar hjá almenningi í landinu að mál á borð við þetta sé sett á dagskrá þingsins sem forgangsmál, þ.e. að fara í strúktúrbreytingar og stofnanabreytingar á skipulagi þróunarsamvinnu, án þess, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefnir, að nein dæmi séu gefin upp sem beinlínis séu góðar fyrirmyndir eða nein dæmi nefnd um að pottur sé brotinn í framkvæmdinni eins og hún er núna. Ég nefndi það hér áðan í ræðu minni: Á Alþingi að taka sína orku, á stjórnsýslan að taka sína orku og sinn tíma í að vera að lagfæra hluti sem ekki eru bilaðir þegar ekki er einu sinni hægt að átta sig á hvernig markmiðssetningin tengist framkvæmdinni?

Mig langar því að spyrja hv. þingmann — ekki að hún sé beinlínis í aðstöðu til að hafa vitneskju um það, en hún kann að hafa hugmyndir um það — hver tilgangurinn með frumvarpinu er. Ef við höfum efasemdir um að frumvarpið nái þeim markmiðum sem upp eru gefin, um að bæta stjórnsýsluna, ef við sjáum ekki beinlínis hvar þarf að bæta hana, hver er þá tilgangurinn? Er það að fækka ríkisstofnunum, er það að koma til móts við tölu í Excel-skjali um fækkun ríkisstofnana? Er þetta, eins og hv. þingmaður nefndi, tilraun til að nýta betur fjármuni af því að um of hafi verið skorið niður í utanríkisráðuneytinu? Hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður um tilganginn með þessum strúktúrbreytingum sem svo erfitt er að greina í sjálfu frumvarpinu?

Nú eigum við vissulega eftir að fá skýrslu frá ráðuneytinu og vonandi verður einhverjum af þessum spurningum svarað. En mér finnst þetta að einhverju leyti endurspegla trú á fækkun stofnana, að það sé jafnvel markmið í sjálfu sér án þess að hugað sé að inntaki verkefnisins sjálfs. Mig langar að heyra hvað hv. þingmaður hefur um það að segja.