144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, ráðuneytin voru nú tiltölulega opin, að minnsta kosti þegar ég var þar. En jú, það er rétt, það er kannski af því að þau hafa önnur verkefni með höndum, þau eru ekki beinar þjónustustofnanir heldur eru þetta stefnumótunar- og eftirlitsaðilar. Þau geta þess vegna virkað eins og þau séu lokuð. En ég hvet nú samt þá sem á hlýða að hafa samband ef þeir þurfa að hafa samband við ráðuneytin og reyna að komast þar að.

Það sem hv. þingmaður nefndi hér finnst mér vera lykilatriði, þ.e. að það megi undirbyggja þetta mál betur. Mér finnst sjálfri mjög óþægilegt að vera alþingismaður og vera boðið upp á að hér komi inn mál með jafn róttækri breytingu og raun ber vitni sem ekki er nægilega vel undirbúið. Að baki því eru úttektir og skoðanir og athuganir ólíkra aðila sem komast að ólíkri niðurstöðu, fólk sem ég ber virðingu fyrir og mér finnst hafa gert góða hluti á sínum sviðum. Hæstv. ráðherra velur eina þeirra og ákveður að fara þá leið án þess að rökstyðja það nægilega vel að mínu mati.

Síðan er í farvatninu stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á mögulegum breytingum og þróunarsamvinnunefnd OECD er að vinna jafningjaúttekt á stofnuninni sem verður tilbúin á næsta ári. Ég spyr þess vegna: Hvers vegna bíðum við ekki eftir þessu þannig að við höfum þetta allt fyrir augum þegar við tökum á endanum ákvörðun um leiðina? Og þegar öll þessi gögn og allar þessar upplýsingar liggja fyrir gerum við atlögu að því að ná um þetta pólitískri samstöðu en skutlum ekki frumvarpi inn í þingið með þessum hætti án þess að hafa beðið eftir faglegum úttektum. Það þykir mér erfiðast við þetta mál, (Forseti hringir.) að geta ekki fengið að bíða eftir því að sjá þær niðurstöður.