144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl., um skipulag, sem hæstv. utanríkisráðherra flytur á Alþingi. Strax og það var kynnt og því dreift á Alþingi hefur það valdið miklum deilum. Þær deilur endurspeglast heldur betur í umræðunni í dag þar sem þingmenn hafa komið fram með spurningar, skoðanir sínar og rök fyrir því að þetta sé vitlaus leið. En það sem alvarlegast er að enn einu sinni gerist það við flutning á lagafrumvörpum að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins láta ekki sjá sig, taka ekki þátt í umræðunni. Hæstv. utanríkisráðherra situr að vísu í salnum og sinnir ýmsum erindum með fjarskiptatækni nútímans en hann tekur ekki þátt í umræðu og fer ekki í andsvör til að útskýra mál og svara spurningum sem þingmenn leggja fram.

Ég verð að lýsa megnustu andúð á framkomu núverandi ríkisstjórnar og þessu vinnulagi á Alþingi og því miður verð ég að segja það líka um fjölmarga þingmenn stjórnarflokkanna sem láta ekki sjá sig, taka ekki þátt í umræðu, ekki 1. umr., jafnvel ekki 2. umr. nema að lesa nefndarálit og koma ekkert í umræður á Alþingi nema kannski í Störf þingsins þar sem ekki er hægt að eiga orðastað við hv. þingmenn. Er það ekki rétt, virðulegi forseti, að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið til máls? Á það sama ekki ábyggilega við um framsóknarmenn? Ég varð að vísu að bregða mér af bæ milli kl. fimm og átta en mér sýnist að enginn þingmaður þeirra hafi komið hér upp. Hvar eru þingmenn stjórnarflokkanna úr utanríkismálanefnd? Af hverju tekur utanríkisráðherra ekki þátt í umræðunni, svarar spurningum sem koma fram og tekur þátt í umræðunni eins og venja er? Það er sennilega álíka og að skvetta vatni á gæs að gera þetta að umtalsefni en ég vildi samt sem áður festa það í þingtíðindi enn einu sinni að gefnu tilefni.

Núna hefur hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, flutt frumvarp um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það var framsóknarmaðurinn og heiðursmaðurinn, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, Skagfirðingur eins og núverandi hæstv. ráðherra, Ólafur Jóhannesson, sem flutti frumvarp 1981, nánar tiltekið 7. apríl, um stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þar kom þetta nafn fyrst fram. En nú er það verk framsóknarmannsins, hæstv. ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar, fyrir hönd Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, að flytja frumvarp þar sem ráðist er á þetta starf og þessa stofnun með því að leggja hana niður og taka hana sem deild inn í ráðuneytið. Áður en ég fer nokkrum orðum um það sem Ólafur Jóhannesson sagði við flutning málsins á sínum tíma eða það sem aðrir þingmenn sögðu við nefndarvinnu ætla ég að segja að ég hef ekki fundið ein einustu skynsamleg rök flutt af ráðherra eða í frumvarpinu sjálfu fyrir þessari breytingu.

Þá ætla ég að leyfa mér að hafa eina skoðun og láta hana koma hér fram á því hvers vegna hæstv. ráðherra gerir þetta. Ég verð að fara aftur til fjárlagagerðar fyrir árið 2014 þar sem við 3. umr. fjárlaga tóku fjárlaganefndarmennirnir og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, sig til og skáru allhressilega niður fjárframlög til utanríkisráðuneytisins. Hæstv. ráðherra lét það koma fram opinberlega hvað hann var hundóánægður með þá ráðagerð þessara fulltrúa í fjárlaganefnd. Það átti að greiða einhverjar tryggingabætur vegna þess að utanríkisráðuneytið tryggði ekki einhverja hluti sem skemmdust í flutningum og ráðuneytið var látið greiða það sjálft. Utanríkisráðuneytið varð þarna fyrir ef ég man rétt mesta niðurskurði í ráðuneytum sem gerður var fyrir árið 2014. Og þá kem ég að því sem ég held að sé megintilgangur frumvarpsins. Hann er sá að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa starfsemina alla inn í ráðuneytið, en ég hef lesið mér til um að þar séu níu menn á skrifstofu og 40 í öðrum störfum. Þá ætlar ráðuneytið að taka það sem fer á fjárlögum í almennan rekstur Þróunarsamvinnustofnunar upp á 132 millj. kr. fyrir þetta ár samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, ég man ekki til að það hafi breyst við samþykkt þess, og síðan pakkann upp á 1.476 millj. kr. í þróunaraðstoð eða samtals 1,6 milljarða kr. En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um þessa níu eða tíu starfsmenn, að koma þeim inn í ráðuneytið og láta þá vinna önnur verkefni með. Ég get ekki séð nokkurn annan flöt á því hvers vegna er verið að gera þetta vegna þess að ekki koma fram nein rök í frumvarpinu fyrir þessu, t.d. að stofnunin hafi verið illa rekin, farið fram úr fjárlögum eða annað. Það segir m.a. hér í skýringum, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið, og hefur margsannað sig í óháðum úttektum.“

Ríkisendurskoðun hefur m.a. gert úttekt. Þessi stofnun hefur aldrei farið fram úr fjárlögum. Hún hefur með öðrum orðum verið ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins en samt sem áður er ráðist á hana.

Virðulegi forseti. Hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Ólafur heitinn Jóhannesson flutti lagafrumvarp um stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 7. apríl 1981 og þar fjallar hann um ályktun sem samþykkt var á þingi Sameinuðu þjóðanna um að stefnt skyldi að því að iðnríki verðu a.m.k. 1% þjóðartekna til stuðnings þróunarríkjum. Ég held að það sé best að festa aftur í þingtíðindi það sem hæstv. þáverandi ráðherra sagði, virðulegi forseti:

„Eitt þeirra viðfangsefna, sem verða æ þýðingarmeiri með ári hverju á sviði alþjóðamála, er sú umræða sem fram hefur farið, aðallega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um samskipti ríkra þjóða og snauðra. Veigamikið atriði í því máli er sú krafa þróunarlanda, að aukin verði aðstoð til þeirra frá iðnríkjunum sem geri þeim síðan kleift að standa á eigin fótum.“

Mikilvægt og gott markmið. Síðan fjallar utanríkisráðherrann fyrrverandi, Ólafur Jóhannesson, um að skömmu áður en áðurnefnd ályktun var samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt á Alþingi lög um nýja stofnun, Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, nr. 20/1971. Þar var fyrst fjallað um að veita 1% af þjóðartekjum í þessa aðstoð. Síðan gerist það að stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin bað þáverandi ráðherra, þ.e. Ólaf Jóhannesson, tveimur árum áður en hann flutti frumvarpið, að hann hlutaðist til um endurskoðun á lögunum. Hann gerði það og fól stjórn stofnunarinnar að framkvæma þá endurskoðun og það má segja að frumvarpinu sem ráðherra flutti hafi verið ætlað að leysa lögin af hólmi. Hæstv. ráðherra sagði þá, með leyfi forseta:

„Það eru nokkur nýmæli í þessu frumvarpi. Nú er skipt um heiti á stofnuninni og hún kölluð Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það er ekki heppilegt heiti og væri gott ef menn gætu fundið eitthvert betra heiti.“

Það fundu menn reyndar ekki, hvorki í efri deild né neðri deild. Síðan var þetta mál unnið í deildunum og í báðum deildum voru fulltrúar allra flokka sammála um að mæla einróma með samþykki frumvarps um Þróunarsamvinnustofnun Íslands eins og það lá fyrir á þskj. 603. Það var ekki gerð ein einasta breytingartillaga.

Þarna var heiðursmaðurinn og framsóknarmaðurinn Ólafur Jóhannesson að verki. Nú er það hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson sem kemur hér inn með frumvarp þar sem hann ætlar að leggja niður stofnun sem hefur staðið sig svo vel eins og allar skýrslur segja til um. Og ég fæ ekki séð í frumvarpinu hvaða rök eru fyrir því að gera það, hverjir eru ókostirnir við Þróunarsamvinnustofnun Íslands í dag, það er ekki talið fram heldur er göslast áfram. Miðað við störf framsóknarmanna í dag í þróunarsamvinnumálum og miðað við það sem ég las hérna áðan er mikill munur á. Ég get ekki annað en vitnað í viðtal við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í desember 2013, þar sem hún segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þetta er bara byrjunin. Lækkun á útgjöldum til þróunarmála og barnabóta er hluti af því að vinda ofan af vitleysu síðasta kjörtímabils.“

Síðan fjallar hún um að þarna þurfi að skera niður og barnabæturnar eru teknar niður um 600 millj. kr. Síðan er ráðist á Þróunarsamvinnustofnun. Í þessari frétt segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Hinn aukni niðurskurður á útgjöldum til þróunarmála gengur þvert á það sem Framsóknarflokkurinn sagði í aðdraganda síðustu kosninga. Í færslu sem birtist á facebook-síðu flokksins þann 17. apríl er því haldið fram að Framsókn vilji hækka gjöldin þar til markmiði Sameinuðu Þjóðanna um að 0,7% af landsframleiðslu sé varið til þróunarmála sé náð.“

Ég hef gert hér að umtalsefni það frumkvæði sem Ólafur Jóhannesson sýndi með stofnun Þróunarsamvinnustofnunar. Lögunum var breytt 2008 og það vekur sérstaka athygli mína að við samþykktina, lokaatkvæðagreiðslu um það þingmál árið 2008, studdi ekki einn einasti framsóknarmaður þær breytingar. Þeir voru ekki á móti, þeir voru allir fjarverandi. Nú kann að vera að það hafi verið einhver áríðandi framsóknarfundur sem hafi kallað þá alla héðan úr þinghúsinu á sama tíma, en ég spyr mig og get því miður ekki svarað því: Hvers vegna voru framsóknarmenn ekki viðstaddir þessa atkvæðagreiðslu? Voru þeir að sýna þar eitthvað sem síðar meir hefur svo komið skýrar fram? Eins og til dæmis það sem Vigdís Hauksdóttir sagði í desember 2013, þar sem hún lét það flakka að þetta væri bara byrjunin.

Nú kemur hæstv. utanríkisráðherra með þetta óheillavænlega frumvarp sem að mínum dómi á að kalla til baka og vinna betur og vil taka undir það sem hér hefur komið fram. Hann hefði auðvitað átt að sýna hvað hann getur orðið stór og óska eftir samvinnu allra þingflokka við að fara í gegnum þessi mál, mynda samstöðu líkt og gert hefur verið að umtalsefni að var gert við samningu frumvarpsins 2008 og í vinnu í utanríkismálanefnd sem leiddi til slíkrar samstöðu að enginn var á móti því máli. Af hverju? Af hverju hefur hæstv. utanríkisráðherra ekki það breitt bak? Af hverju hefur hann ekki þá víðsýni að kalla til fulltrúa allra flokka á þingi og láta þá taka þátt í starfinu?

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en lýst mig andvígan þessu frumvarpi eins og það leggur sig. Ég gagnrýni mjög vinnubrögðin og segi að þetta frumvarp á ekki að gera mikið meira en að fara í gegnum 1. umr. og helst að sofna í nefnd að henni lokinni.