144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ástæða til að lýsa eftir þeim hv. þingmönnum. Hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Ásmundur Einar Daðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson og nú er ég væntanlega að gleyma einhverjum einum ágætum sjálfstæðismanni, jú, og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, mikið rétt. Hvar eru þessir sex þingmenn? Hv. þm. Birgir Ármannsson kom hér upp um fundarstjórn forseta áður en umræðan hófst. Aðrir hafa ekki látið til sín taka í þessari umræðu. Mér finnst, virðulegi forseti, ástæða til að ræða þetta í forsætisnefnd. Hvernig eigum við að geta átt hér umræður og samræður ef manni er ekki svarað, maður er ekki virtur svars? Enginn kemur hingað upp, og hæstv. ráðherra, ég hef orðið vör við að hann hafi farið í eitt andsvar. Hann hefur setið hér og hlýtt á ræður okkar og vonandi hlýtt á þá gagnrýni sem þar hefur komið fram. Eitt andsvar. Hv. þingmenn í utanríkismálanefnd sjást ekki, hafa að minnsta kosti ekki tekið þátt í umræðum, þeir hafa vissulega sést, einhverjir þeirra.

Ég lýsi því vonbrigðum mínum ásamt hv. þm. Kristjáni Möller, en ítreka seinni spurningu mína frá fyrra andsvari um markmið frumvarpsins, hvort hann telji þau nægilega skýrt skilgreind í greinargerð með frumvarpinu í ljósi þess að þar er ekki gerð grein fyrir öðru en að framkvæmd þróunarsamvinnu gangi vel. Þá spyr maður hvernig nákvæmlega þessi strúktúrbreyting á að ná þeim markmiðum að bæta væntanlega gæði þess starfs sem við innum af hendi.