144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst mjög gott að rifja svolítið upp forsögu þessa máls og að það hefði verið samflokksmaður hæstv. ráðherra frá fyrri tíma, Ólafur heitinn Jóhannesson, sem var upphafsmaður að þessari stofnun á sínum tíma, eins og ég skildi þetta. Það er miður að sú kynslóð sem kemur svo seinna sé ekki að bæta málið heldur frekar að gefa því minni vigt en var farið af stað með í upphafi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í undirbúning að þessari ákvörðun hæstv. ráðherra og skýrsluna sem liggur til grundvallar frumvarpinu. Það kemur fram í viðtali við hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, að hann segir:

„Það er búið að vinna margar skýrslur um hvernig best sé að halda á þróunarsamvinnu. Þær hafa allar komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að sameina þetta inni í ráðuneyti.“

Er þetta tilfellið? Hafa ekki komið fleiri skýrslur eins og skýrsla Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, sem setur fram allt annað? Hvað telur hv. þingmaður með svona skýrslu, hefði ekki hún ekki átt að koma fyrir Alþingi til umræðu og fara til utanríkismálanefndar áður en menn tækju svo afdrifaríkar ákvarðanir? Hafa ekki ýmsar skýrslur um ýmis mál fengið faglega meðferð í þinginu? Var ekki t.d. skýrsla um sæstreng hér til umræðu áður en kom til ákvörðunartöku af hálfu viðkomandi ráðherra sem um málaflokkinn fjallaði?